149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þeir samningar sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, samningar við heilsugæslustöðvar í einkarekstri, voru gerðir var á sama tíma verið að breyta fyrirkomulagi, þ.e. fjármögnun, allrar heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það var tekið upp nýtt módel, ferilverk, greitt fyrir greitt verk og greitt fyrir það sem skráð er á viðkomandi heilsugæslu. Pínulítil samkeppni var sem sagt innleidd í heilsugæsluna. Það var allt í einu eftirsóknarvert fyrir heilsugæslu óháð því hvort hún væri í einkarekstri eða opinberum rekstri að laða til sín fólk, sjúklingana eða þá sem þurftu á þjónustu að halda.

Hvað gerðist þegar pínulítil samkeppni var innleidd? Biðlistarnir styttust allt í einu. Þeir styttust. Ég hygg að þetta módel sé til fyrirmyndar á margan hátt.

En þegar sú ákvörðun var tekin leit ég þannig á að þegar hér væri verið að gera samning um að ekki væri greiddur arður vegna þessa væri um tímabundna ráðstöfun að ræða, enda væri verið að innleiða nýtt kerfi þar sem verið var að tryggja að einkaaðilar og opinber rekstur væru með sömu fjármögnunina, stæðu jafnfætis. Ég hygg að sú tilraun hafi tekist. Við höfum séð betri þjónustu og styttri biðlista. Við eigum að fara áfram með þetta. Ég hygg (Forseti hringir.) að ég hafi sagt opinberlega að þetta sé gott dæmi um það hvernig við getum hægt og bítandi innleitt þjónustu og samkeppni í íslenskt heilbrigðiskerfi.