149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í fyrsta lagi varðandi þessa umræðu um að hið opinbera heilbrigðiskerfi sé skilvirkast — hvernig er þá það opinbera heilbrigðiskerfi skilgreint. Ég skilgreini opinbert heilbrigðiskerfi sem grundvallarþjónustu við íbúa landsins, að við höfum aðgang að svo til gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, þ.e. greitt af hinu opinbera, óháð því hver veitir þjónustuna. Þá er ég að tala um að tryggja hámarksskilvirkni. Ég hygg að það sé t.d. það sem við sjáum bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndunum að þar er fjölbreyttu rekstrarformi beitt einmitt til að tryggja hámarksskilvirkni en ríkið greiðir.

Ég er alveg sammála því að ég held að það sé mjög skilvirk leið til að tryggja sem besta nýtingu fjár og um leið besta þjónustu fyrir íbúa landsins.

Ég vil ekki reikna mönnum inn neina sérstaka tiltekna arðsemi í samninga eða að það sé útgangspunktur hins opinbera, þegar sest er niður til samninga við aðila sem vill bjóða heilbrigðisþjónustu, að honum sé reiknuð einhver arðsemi. Ég tel það ekki vera að nýta kosti samkeppninnar á þessu sviði. Ég tel langskynsamlegast að tilboða sé aflað í veitta þjónustu. Ég tel að samningar okkar við sérfræðilækna gætu um margt verið mun betri með því að nálgast þá ekki eins og einhvers konar kjarasamninga við lækna, heldur að ríkið afli tilboða í tiltekin læknisverk á sem hagkvæmustum kjörum fyrir ríkið sem kaupanda. Það er síðan læknanna að vinna úr því þannig að þeir hafi af því þær tekjur og bjóða það verð sem þeir treysta sér til að starfa út frá. Það er örugglega hægt að skipuleggja starfsemi sérfræðilækna hér á landi talsvert betur en gert er í dag með aukinni skilvirkni, stærri stofum o.s.frv., meiri samvinnu einstakra lækna. Það má örugglega bæta skilvirknina þar. Markmiðið á ekki að vera að tryggja þeim einhverja lágmarksarðsemi, heldur að ríkið nálgist það frá hinum endanum að tryggja sér sem hagstæðust kaup.