149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[15:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sameiginlegur áhugi eða áhugamál okkar, þessara tveggja þingmanna, að biðlistar eftir aðgerðum styttist. Þá segi ég aftur: Ef mönnum finnst fáránlegt að eyða stórfé í að senda fólk úr landi, sem það er, alveg sama hvernig rétturinn til þess skapaðist, og láta framkvæma þar aðgerðir sem eru miklu dýrari en á Íslandi og hægt er að framkvæma á Íslandi með góðu móti en menn kjósa að gera það ekki af því að þeir hafa óbeit á þeim sem framkvæma aðgerðirnar á Íslandi — mér finnst það ekki boðlegt, hv. þingmaður.

Ég verð að segja alveg eins og er að hvað sem við gerum, þótt okkur greini á um hvernig reka eigi heilbrigðiskerfi á Íslandi hljótum við að vera sammála um eitt meginmarkmið, það er að þeir sem njóta þjónustunnar, þeir sjúku, fái viðeigandi meðferð eins og hratt og örugglega og hægt er og með eins miklum og góðum árangri hægt er.

Það tryggjum við best með því að leita hagkvæmustu leiðanna til þess að gera þetta. Jú, það er rétt að í gangi er átak hjá heilbrigðisyfirvöldum til að stytta þennan biðlista. Hann styttist um 150 andlit í fyrra, sem er sá fjöldi aðgerða sem unninn var á Klíníkinni. Það er staðreynd. Hvernig þetta hefur verið gert á Landspítalanum er mér ekki fullkunnugt um, en ég hef samúð með því sjúkrahúsi sem er með neyðarþjónustuna og bráðaþjónustuna á sínum herðum. Það er náttúrulega ekkert einfalt mál að samtvinna innkallaðar aðgerðir og bráðaaðgerðir. Það vita allir.

Einmitt þess vegna er brýnt að menn leiti allra leiða fordómalaust til þess að vinna á biðlistum með sem hagkvæmustum hætti, sjúklingunum til heilla.