149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

vegalög.

32. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir spurninguna. Ég er afskaplega ánægður með að þingmaðurinn styðji þetta frumvarp þó að hann átti sig ekki alveg á öllum textanum þar. Málið fer til samgöngunefndar sem fer yfir það og við fáum umsagnir.

Þetta er unnið eftir leiðbeiningum úr viðamiklu áliti umboðsmanns Alþingis. Hann gerði athugasemdir við 2. mgr. 8. gr. og 22. gr. sem eru þær greinar sem hér eru til umfjöllunar og verið að gera breytingu á. Ég veit ekki hvort þetta sé alveg í þeirri mynd sem þetta mun líta út, en auðvitað munu nefndin og umsagnaraðilar fjalla um málið.

Ég hlakka að sjálfsögðu mikið til þess að sjá hvernig það mun líta út, hvort menn taki vel í þetta eða ekki, eða hvort þeir finni einhverja meinbugi á því. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir íbúa á öllum þessum eyjum að ríkið sé skyldað samkvæmt vegalögum til að sjá um samgöngur til þeirra en geri það ekki bara vegna þess að það sé kallað eftir því á hverjum tíma. Þá er kominn grunnur að því að það verði skipulagt og skilgreint hvernig þjónustan á að vera, hversu oft, með hvaða skipi, hvaða aðbúnaður verði varðandi bíla, farþega, svefnstað, tíðni og hvert og hvaðan o.s.frv. Það er það mikilvæga í þessu, að það verði skilgreint og ríkið verði skyldað til að taka þetta að sér en ekki eins og verið hefur, og umboðsmaður benti á, að þetta sé hipsum happs og bara undir höfuð lagt hvernig þetta er.