149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

tekjuskattur.

18. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt á þskj. 18. Ég geri það í fjarveru 1. flutningsmanns, hv. þm. Haraldar Benediktssonar, en auk okkar tveggja eru hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir flutningsmenn frumvarpsins.

Frumvarpið er í sjálfu sér einfalt. Í 1. gr. segir að í stað orðsins „sjö“ í 1. málslið 1. mgr. 27. gr. laganna komi tölustafurinn 20.

Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu miðar að því að auðvelda kynslóðaskipti í íslensku atvinnulífi. Nái frumvarpið fram að ganga verður heimilt að dreifa skattskyldum söluhagnaði þar sem hluti söluandvirðis er greiddur með skuldaviðurkenningu á allt að 20 ár, eftir afborgunartíma skuldaviðurkenninga. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 27. gr. tekjuskattslaganna er heimilt að dreifa söluhagnaði í allt að sjö ár við þær aðstæður.

Kynslóðaskipti á fyrirtækjum og bújörðum í rekstri reynast oft og tíðum erfið og margs þarf að gæta við yfirfærslu verðmætanna, til að mynda réttinda annarra erfingja en þeirra sem við taka. Algengt er að stofnandi fjölskyldufyrirtækis vilji selja einhverjum í fjölskyldu fyrirtæki sitt eftir langan rekstur. Oftar en ekki er viðkomandi reiðubúinn til að aðstoða við fjármögnun kaupanna, t.d. með því að taka við greiðslu, að hluta eða öllu leyti, í formi skuldaviðurkenningar. Slík fjármögnun er oft forsenda þess að sá er við rekstrinum tekur hafi til þess bolmagn. Um leið eru réttindi annarra erfingja tryggð, enda viðkomandi eign seld á sanngjörnu markaðsverði en ekki undirverði líkt og stundum brennur við þegar tryggja á kynslóðaskiptin. Erfingjar standa því betur að vígi og einnig ríkissjóður. Með útgáfu skuldaviðurkenningar frá kaupanda eignast seljandi í raun ígildi eftirlaunasjóðs sem tryggir honum tekjur. Andist viðkomandi áður en greiðslum lýkur er eftirstöðvum skuldabréfsins skipt upp á milli erfingja í samræmi við lög og erfðaskrá ef við á.

Líkt og við á um hefðbundinn atvinnurekstur hefur sala á bújörðum milli kynslóða oft reynst erfið. Þegar kemur að sölu við ábúendaskipti er stofnverð eða matsverð búreksturs gjarnan orðið langt undir markaðsverði og þá myndast mikill skattalegur söluhagnaður. Af honum þarf að greiða tekjuskatt sem getur reynst seljanda erfitt ef hluti greiðslu er í formi skuldaviðurkenningar. Í sumum tilvikum getur það þýtt að nauðsynleg kynslóðaskipti geti ekki átt sér stað. Þetta er hamlandi á nauðsynlega þróun í sveitum og skapar jafnframt hvata til að jarðir séu teknar úr búrekstri, enda getur verið auðveldara að selja bújörð undir starfsemi þar sem veltuhraði er meiri en í landbúnaði og greiðara aðgengi er að fjármagni.

Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins eru í gildi ýmsar afmarkaðar heimildir í lögum sem heimila að fresta eða dreifa skattgreiðslum á söluhagnaði. Til dæmis er ekki greiddur skattur af söluhagnaði eigin íbúðarhúsnæðis ef seljandi hefur átt það í a.m.k. tvö ár. Í sveitum eru hins vegar ekki alltaf skýr skil milli búreksturs og heimilishalds og til að mynda eru allar eignir yfirleitt settar að veði fyrir skuldum búsins, þar með talið íbúðarhúsnæðið. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt er seljanda heimilt að óska eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar í heild yfir tvenn áramót, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota innan þess tíma. Þetta er regla sem gildir sérstaklega um söluhagnað af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum. Skilyrði er að búrekstur hafi verið á jörðinni í fimm ár af síðustu átta og jafnframt að ef keypt er önnur bújörð eða íbúð til eigin nota verði seljandi að eiga þær og reka í a.m.k. tvö ár.

Í 22. gr. er almenn heimild til að dreifa skattgreiðslum af bótum vegna altjóns eða eignarnáms sem teljast söluhagnaður á allt að fimm ár, en reyndar aðeins þrjú ef um ófyrnanlega eign er að ræða og í 27. gr. er almenn heimild til að dreifa greiðslu skatts vegna söluhagnaðar þess hluta söluverðs sem greiddur er með seljendaláni eða skuldaviðurkenningu sem er til þriggja ára eða lengur, en þó ekki lengur en sjö ár. Í frumvarpinu er lagt til að sú heimild verði rýmkuð þannig að í þeim tilvikum sem nefnd eru í greininni verði hægt að dreifa greiðslu söluhagnaðar á allt að 20 ár.

Það eru dæmi um að farin sé sú leið að stofna einkahlutafélag og selja hlutaféð í framhaldinu. Þá er notuð svokölluð yfirfærsluleið eigna samkvæmt rekstrarskýrslu fráfarandi eiganda yfir í einkahlutafélag og fasteignum jafnframt þinglýst yfir á félagið. Við sölu á hlutafé leggst fjármagnstekjuskattur á söluhagnað en ekki tekjuskattur. Í rauninni má segja að þannig ýti gildandi lög undir slíka aðferð, sem er ekki sérstaklega eftirsóknarverð.

Til að bregðast við þeim vanda og stuðla að áframhaldandi matvælaframleiðslu væri heppilegt að hvetja til að jörðum sé haldið í búrekstri. Áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs, verði það að lögum, eru óveruleg til lengri tíma litið og gætu raunar orðið til að auka þær töluvert, enda hvatinn til að færa eignir milli kynslóða á undirverði og þar með ekki gæta hagsmuna annarra erfingja ekki sá sami og áður.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.