149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[18:58]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn þakka ég hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir andsvarið. Jú, ég fagna því ef við náum þessari umræðu eitthvað áfram. Þetta er til að ýta við því. Auðvitað þurfum við að setja niður fyrir okkur hvaða jarðir er eðlilegt að ríkið eigi. Er það yfir höfuð eðlilegt að ríkið sé með yfirumsjón með þessum fjölda jarða?

Hv. þingmaður spurði líka hvort það sé yfir höfuð rétt að þetta sé á forræði fjármálaráðherra. Ég get alveg séð fyrir mér að það yrði betri samfella og betri yfirsýn ef þær jarðir sem eru nýttar til landbúnaðar heyrðu undir landbúnaðarráðherra. En þá þurfum við að tala um það, hvort við ætlum að fara þá leið að ríkið haldi utan um jarðir þar sem búskapur er.

En ef við getum fundið leiðir til að hjálpa fólki til að halda áfram búskap, hefja búskap, þá fagna ég því. Það er mjög gott. Því að það er vissulega til, eins og ég kom að áðan, ógrynni af ungu, vel menntuðu fólki til að stunda búskap og við þurfum einhvern veginn að finna leiðirnar. Nú erum við t.d. að tala um landgræðslu, kolefnisspor og annað slíkt. Er einhver leið að taka þátt í þeirri vinnu, leggja það af mörkum til að komast í færi til að eignast jarðirnar? Þetta er bara hugmynd sem ég velti hér upp, sem við gætum svo vel skoðað.

Ég tek undir að ég vona að við komum þessu máli áfram. En við erum hvergi hætt. Við erum seigari en það, flutningsmenn þessarar tillögu. Við skulum bara vona að þetta hafist í þetta skipti.