149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

77. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna framkomnu frumvarpi, sem hljómar kannski undarlega vegna þess að þetta er eiginlega lagaleg tiltekt eftir að við samþykktum persónuverndarlög á dögunum. Ég fagna því vegna þess að það kemur nokkuð skýrt fram með þessu frumvarpi hvernig fara eigi með persónugögn af hálfu ríkisstofnana. Ég get ekki annað en tekið stuttlega til máls því að nú er komin pínulítil reynsla á lögin. Ég hef mikið verið að spá í þessi lög, mikið að tala um þau við fólk á ýmsum stofnunum sem notar gögn og þarf að nota gögn. Víða í samfélaginu hafa verið þær áhyggjur að nú sé bara ekki hægt að gera neitt lengur, allir póstlistar þurfi að fara í einhverja endurvinnslu og guð má vita hvað.

En þá finnst mér rétt að nefna við þetta tilefni að til þess að bregðast við þessum lögum er það fyrsta sem fólk og stofnanir sér í lagi þurfa að gera að tileinka sér ákveðið hugarfar, það hugarfar að persónuupplýsingar tilheyri þeim einstaklingi sem upplýsingarnar fjalla um. Í öðru lagi að stofnanir almennt lágmarki eftir fremsta megni þær upplýsingar sem þær safna og safni ekki upplýsingum nema mjög skýr þörf sé á því. Núna eru það orðin lög.

En ég hef líka tekið eftir því að oftast þegar ég tala við fólk hjá hinum ýmsu stofnunum, og ég nota orðið stofnun í mjög víðum skilningi, ég er ekki bara að tala um ríkisstofnanir heldur fyrirtæki og félagasamtök og hvað eina, er fólk frekar fljótt að gefa sér eða finna rök því til stuðnings að það þurfi mjög lítið að gera. Að þetta eða hitt eigi ekki við hina eða þessa stofnunina eða þá að fyrirkomulagið eins og það sé alveg nógu gott nú þegar. Ég hef ekki enn þá hitt neinn hjá ríkisstofnun eða fyrirtæki sem segir mér blákalt: Ég tel okkur starfa í fullkomnu samræmi við persónuverndarlög í dag. Það er líka einkenni þess að við slóruðum svolítið með þessa reglugerð á Íslandi. Og þótt vakin hafi verið athygli á henni fyrir alla vega tveimur árum síðan var eins og það kæmist einhvern veginn aldrei alveg fullkomlega til skila að hún myndi taka gildi hérna og að bregðast þyrfti við því.

Fyrir vikið eru íslenskar stofnanir, aftur í víðum skilningi, ekki reiðubúnar til þess að breyta ferlum sínum þannig að þau séu til samræmis við lögin og er það miður. Það er mjög leiðinlegt, finnst mér.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra nema hvað að mig langar að koma að einum punkti sem ég veit að er ekkert ægilega vinsæll og er án tillits til þess hvort fólk aðhyllist aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Hann er þessi: Ég tel fullkomlega óhugsandi að Alþingi Íslendinga hefði að eigin frumkvæði farið út í þá vinnu að tryggja vernd persónuupplýsinga með þeim hætti sem þessi lög gera. Ég tel það fullkomlega óhugsandi eftir að hafa unnið á Alþingi í nokkur ár og fylgst með því miklu lengur og eins vegna þess að ég þekki ágætlega stjórnmálaleg viðfangsefni hverju sinni.

Mikið af svona hlutum, löggjöf sem gengur mjög langt í að vernda einhver réttindi, hafa mér fundist koma frá Evrópusambandinu. Það er ekki þar með sagt að Evrópusambandið sé fullkomið. Þar er núna til meðferðar algerlega hræðileg tillaga í höfundaréttarmálum sem ég hef flutt eina ræðu um. Ég ætla ekki út í þá sálma. Mér finnst bara þess virði að hafa í huga þegar við samþykkjum löggjöf að það er ekki bara þannig að Evrópusambandið neyði okkur til að taka upp einhver lög og annars séum við brotleg við EES-samninginn, heldur er þetta oft líka mjög vönduð löggjöf, vandað verk sem búið er að rökræða á ýmsum vettvangi, taka tillit til margra athugasemda og búið að máta við raunveruleikann margsinnis og af mörgum aðilum.

Við erum því í rauninni að fá að því leyti ókeypis vinnuframlag, að vísu erlendra þingmanna sem mörgum finnst ekki endilega gott út frá sjálfstæðishugsjón. En mér finnst þess virði að hafa það í huga þegar fram líða stundir því að það er eitt mjög óþægilegt við þessa reglugerð, það er hvernig hún var innleidd í EES-samninginn. Ég ætla ekki alveg út í þá sálma. Ég vil bara að það sé sagt hérna. Það er ekki gott að mínu mati hvernig hún var innleidd inn í EES-samninginn og við eigum að passa okkur betur í framtíðinni. En við þurfum líka að fara að hugsa um það til framtíðar að ef við ætlum ekki að ganga í Evrópusambandið, sem er nokkuð sem ég tel að kjósendur þurfi að ákveða með beinum hætti, þurfum við samt einhvern tímann að breyta EES-fyrirkomulaginu því að fyrr en síðar gengur það á þætti eins og 23. gr. stjórnarskrárinnar um dómsvald og því um líkt. Ég ætla ekki út í öll þau álitamál sem því fylgja. En á einhverjum tímapunkti þurfum við að fara að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að haga svo viðamikilli löggjöf úr samhengi við núverandi EES-samning og vel hugsanlega án þess að Ísland sé aðili að Evrópusambandinu, ef kjósendur greiða að lokum atkvæði gegn því.

Lengra ætla ég ekki að hafa þetta, virðulegur forseti. Ég fagna þeim lögum sem eru til staðar og finnst gaman að sjá í þessu frumvarpi hvernig við erum nú tilneydd til þess að fara betur með persónuupplýsingar. Það er löngu kominn tími til. Þessi löggjöf hefði í raun og veru átt að vera komin fyrir svona 20–30 árum. Ég fullyrði að upplýsingabyltingin hefði þá farið öðruvísi og betur að mínu mati.