149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á þremur staðreyndum sem hafa orðið ljósar á undanförnum misserum. Í fyrsta lagi kemur fram í skýrslu Alþýðusambands Íslands um þróun skattbyrði — skýrslan kom út í ágúst 2017 — að á tímabilinu 1998–2016 hafi skattbyrði hækkað hjá öllum tekjuhópum en mest hjá hinum lægstlaunuðu, mest. Skýringin er sú að persónufrádráttur hefur ekki verið látinn þróast sem skyldi og eru þar stjórnvaldsákvarðanir að baki.

Í annan stað hefur komið fram í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni að á undanförnum fimm árum hafi húsnæðisliður vísitölunnar sogað, ryksugað, 118 milljarða út úr heimilunum í gegnum verðtryggðu lánin á meðan almennar verðhækkanir höfðu í för með sér 15 milljarða hækkun á verðtryggðum lánum.

Í þriðja lagi er sú staðreynd sem fram kom í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn, sem ég leyfði mér að leggja hér fram, að á tíunda þúsund fjölskyldur, íslenskar fjölskyldur, feður, mæður og börn, voru hrakin út af heimilum sínum á árunum sem liðin eru frá hruni. Við þessu verður að bregðast. Ég ætla að nefna nokkur atriði sem fela í sér að reisa varnir í þágu heimilanna.

Í fyrsta lagi er frumvarp, sem stutt er af öllum þingmönnum Flokks fólksins og Miðflokksins, um vexti og verðtryggingu, þar sem þrengt er mjög að verðtryggingunni. Í annan stað er þingsályktunartillaga, sem ég mun mæla fyrir seinna í dag, um það að hætt verði að skattleggja fátækt, þ.e. að hætt verði að skattleggja tekjur sem hrökkva ekki fyrir framfærslu samkvæmt viðurkenndum viðmiðum opinberra aðila. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvernig það megi vera, þrátt fyrir konunglega tilskipun frá 9. febrúar 1798, að verið sé að innheimta af skuldabréfum þar sem lánastofnanir geta ekki framvísað frumritum.