149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Takk fyrir, forseti. Ég þakka kærlega þá umræðu sem hefur verið hér um þetta ágæta mál. Ég ætla að hafa þetta örstutt og ætla eiginlega að fara öfugu leiðina og bregðast fyrst við því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var með vangaveltur um varðandi flækjustigið, það er alveg hárrétt. Hv. þingmaður nefndi flækjustigið hjá sveitarfélögum þegar um er að ræða fatlað barn sem nýtur slíkrar þjónustu og kýs þá, ef þetta gengur í gegn og foreldrar geta skráð barnið með tvö lögheimili í tveimur sveitarfélögum. Mér finnst þetta ekki auka flækjustigið, mér finnst það eiginlega færa það frá foreldrum yfir á sveitarfélagið. Það er þannig sem mér finnst að það eigi að vera. Það að vera fráskilið foreldri, deila forsjá fatlaðs barns, þar sem lögheimilisforeldrið hefur réttindi og hitt ekki, það er raunverulegt flækjustig. Við erum að leysa það með þessu.

Ég er ekki að gera lítið úr að þetta er flækjustig fyrir kerfið, ég er alveg sammála því. Mér finnst að þar eigum við bara að leysa málin. Og ég trúi því og hlakka til að sjá umsagnir um nákvæmlega þessi mál.

Mig langar aðeins að bregðast betur við andsvörum frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni því að hann vísaði í vinnuna frá því síðastliðið vor. Ég skoðaði þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, dómsmálaráðherra, þar sem nefnt er frumvarp til laga um breytingu á barnalögum og fleiri lögum (skipt búseta barna).

Þetta er eitthvað sem er ætlunin að leggja fram eftir áramót, í febrúar.

Um það segir:

„Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns og breytingar á ákvæðum er varða framfærslu barns og greiðslu meðlags.“

Þetta er tengt. Þetta er svipað að einhverju leyti. Þetta er langt frá því að vera það sama. Það er algerlega galið ef menn standa í þeirri trú að þingheimur sé ekki til þess fallinn að leggja fram frumvörp og fá um þau umræðu og helst að koma þeim í gegn af því að kannski, mögulega, ef svo ber undir, eigi að gera eitthvað svipað í ráðuneytunum. Takk.