149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að játa að mér er um margt líkt farið og hv. þm. Haraldi Benediktssyni, ég klóra mér pínulítið í kollinum yfir tillögunni og ekki síst flutningsmönnum tillögunnar, því að þar er að finna höfunda umrædds samning að einhverju leyti. Það er gott að fólk sjái að sér. Ég er lifandi dæmi um hvernig hægt er að komast á aðra skoðun í lífinu. En að láta eins og það hafi ekki gerst finnst mér dálítið sérstakt. Að koma aldrei inn á það og að vekja í engu athygli þeim sérstöku aðstæðum sem komnar eru upp finnst mér benda til þess að hér búi örlítið meira á bak við en bara það að segja samningnum upp fyrirvaralaust.

Mig langar að vitna í greinargerð utanríkisráðuneytisins sem birt var á internetinu, sem gleymir engu, með þessum samningi:

„Það felast tækifæri í samningunum fyrir íslenska bændur. Íslenskur landbúnaður getur ekki byggst eingöngu á framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Aukinn aðgangur að erlendum markaði er nauðsynlegur. Ekki er verið að fórna neinu í samningunum en vissulega eru þeir áskoranir fyrir framleiðendur og einmitt þess vegna koma þeir til framkvæmda á nokkrum árum. Á sumum sviðum gæti samkeppni aukist, en á móti kemur að tækifæri til útflutnings eru mun meiri en verið hafa.“

Mig langar einnig, virðulegur forseti, að vitna beint í þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, sem í samtali við Vísi sagði um tollasamningana:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Ég gæti haldið áfram, virðulegur forseti. Af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, vegna þess að mér finnst kyndugt að einn helsti ábyrgðarmaður samningsins sem við erum að fjalla um skuli nú vera einn af flutningsmönnum tillögu sem gengur út á að segja samningnum upp sisvona, einhliða og eins og hendi væri veifað og eins og við ætlum ekkert að setjast yfir hvað það þýðir nákvæmlega.

Ég held að við sem Alþingi, og ekki síst stjórnvöld almennt og þar með talin þau ráðuneyti sem fara með slík mál, eigi að læra það af slíkum samningum að skoða þarf hlutina betur áður en þeir eru framkvæmdir. Ég er í mörgu sammála hv. þm. Birgi Þórarinssyni um að margt hafi ekki verið nógu vel gert þegar kemur að samningnum. Ég hef aldrei skilið af hverju við vorum að semja um tonn á móti tonni gagnvart Evrópusambandinu, miklu stærri markaði. Ég hef aldrei skilið af hverju við fórum ekki í mun meiri eftirfylgni með áhrifum samningsins og skoðuðum fyrir fram, eins og hægt var, hver áhrif hans yrðu. Mér finnst það mistök hjá þáverandi hæstv. ráðherrum sem að samningnum stóðu að hafa ekki sest betur yfir þetta mál.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór ágætlega yfir tengsl samningsins við búvörusamninginn. Vissulega er þar eitthvað en mér finnst að þessi samningur einn og sér hefði þurft meiri yfirlegu áður en hann var samþykktur og ekki síst eftirfylgni. Þar held ég að við hv. þm. Birgir Þórarinsson séum alveg sammála.

En hver er þá lausnin í því? Er hún sú að við segjum upp samningnum, einn, tveir og þrír, og spáum ekkert í því hvaða áhrif það hefur? Það er ekki endilega lærdómurinn sem ég dreg. Hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á það áðan að ekki væri allt alslæmt í samningnum. Ég held að það sé alveg hárrétt. Við fáum að flytja út um 3.500 tonn af skyri, er það ekki? Þetta afsetur um 10 milljón lítra af mysu sem við höfum engin sérstök not fyrir í neitt annað. Er hv. þm. og aðrir flutningsmenn komnir með áætlun um það í hvað við ætlum að nýta þær 10 milljónir lítra af mysu? Ég vil ekki hrapa að neinu. Ég vil setjast yfir málin og skoða þau. Ég vil reyna að vinna faglega. Ég ætla ekki að taka þátt í leik þar sem menn reyna að slá einhverjar pólitískar keilur því að ég er sammála hv. þm. Haraldi Benediktssyni um að hér koma sumir hv. flutningsmenn fram eins og málið komi þeim bara ekki við og hafi aldrei snert þá áður. Þeir eru eins og nýhrært skyr, hvítir og hreinir sem mjöll og hafa aldrei komið nálægt þessu; hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem þá var hæstv. utanríkisráðherra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var hæstv. forsætisráðherra.

Nú vill svo til að Miðflokkurinn virðist vera orðinn sérstakur áhugamaður um afsökunarbeiðnir og hefur flutt þingmál um að Alþingi biðjist afsökunar á ákvörðunum sínum í fortíðinni, ákvörðunum sem aðrir þingmenn tóku í þessum sal. Mér finnst miður að hv. flutningsmenn skuli ekki hafa nýtt tækifærið til að biðjast afsökunar á eigin gerðum því að það er meiri manndómur í því að biðjast afsökunar á eigin gerðum en annarra. Hv. flutningsmenn, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, gætu staðið hér og beðist afsökunar á þessum samningi sem þeim finnst í dag svo afleitur að við eigum að segja honum upp, einn, tveir og þrír, án þess að velta fyrir okkur hvaða áhrif það hefur nákvæmlega. En það gera þeir ekki heldur krefjast þess að við biðjumst afsökunar á einhverju sem aðrir þingmenn hafa gert. Mér þykir þetta ónýtt tækifæri, virðulegur forseti, og harma það.

En í þeim efnum ítreka ég að milliríkjasamningar eru ekki eitthvað sem gerist eins og hendi sé veifað. Hv. þingmaður vísar til Brexit og samninga við Bretland eftir að það hefur gengið úr Evrópusambandinu. Ég held að það sé ekki eitthvað sem við erum að fara að gera á morgun eða á næsta ári. Við vitum ekki nákvæmlega hver staðan verður.

Ég styð það að við setjumst yfir samninginn, skoðum áhrif hans. Ég hef talað um það. Gott ef við hv. þingmaður vorum ekki sammála um ýmsa hluta hans í umræðum á síðasta þingi. En lausnin er ekki sú að henda samningnum, einn, tveir og þrír. Lausnin er sú að reyna að setjast yfir hann, skoða áhrifin, er hægt að fara í mótvægisaðgerðir? Ég er sammála hv. þingmanni, ég hefði viljað sjá þess merki að fara ætti í þær. En fyrst og fremst þurfum við að skoða hlutina og taka yfirvegaða ákvörðun. Við erum ekki í þingsal til að slá pólitískar keilur og vera vinsæl. Við erum hér til að reyna að vinna faglega að hlutunum.