149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:24]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þessi þingályktunartillaga er býsna merkileg og ber að þakka fyrsta flutningsmanni, hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, fyrir málið.

Málið er mikilvægt í mörgu tilliti. Það er auðvitað mikilvægt að hvetja ungt fólk til þess að taka þátt í því að móta eigin framtíð og hið sama gildir um nýja kjósendur, aðflutta, sem koma hingað og fá kosningarrétt. Það er mikill auður í því fólki öllu saman og mikilvægt að það sé boðið velkomið til þátttöku og til starfa í því samfélagi sem það lifir í. Ég held að líka sé mikilvægt að aftengja þetta, eins og hér er lagt til, árlegu kosningavafstri, þegar margir vakna allt í einu upp við það að þarna eru kjósendur sem þarf að ræða við.

Það er mikilvægt til að hinir nýju kjósendur skilji betur hvað felst í störfum Alþingis. Ég held að þetta sé til þess fallið að færa þingið og störf þess nær nýjum kjósendum vegna þess að ímynd okkar í margra huga er sú að hér sitji í einhvers konar fílabeinsturni, leyfi ég mér að kalla það, fólk sem er öðru fólki merkilegra eða þá hitt, sem er kannski verra, ég veit það ekki, að þetta sé leikhús, en gjarnan er talað um leikhúsið við Austurvöll. Það er ekki góð ímynd og þess vegna er svo mikilvægt að sýna fólki inn í starfið og hvernig það fer fram.

Það er ekki eins og ekkert sé gert, þingið sjálft stendur sig ágætlega í því að bjóða fólk velkomið sem vill koma í heimsókn. Það er haldið Skólaþing og boðið upp á heimsóknir og ég hef nokkrum sinnum verið fenginn sem þingmaður til að spjalla við ungt fólk sem hefur komið í þinghúsið um störf þingsins og pólitíkina. Ég verð ekki var við annað en að fólk sé bæði mjög áhugasamt og kunni að meta að talað sé við það. Það er það sem við þurfum að gera, þingið og við, því að við erum auðvitað þingið og getum ekki varpað öllu yfir á starfsmenn þingsins. Við erum ásýndin og það fólk sem drífur áfram þingstörfin. Ég held því að mjög mikilvægt sé að vel takist til. Vonandi tekst okkur með því að glæða áhuga nýrra kjósenda á því að taka þátt í samfélaginu og nýta kosningarrétt sinn.

Ég lýsi enn og aftur yfir ánægju minni með tillöguna. Ég held að hún geti verið partur í því að efla traust á Alþingi og auka virðingu borgaranna fyrir því sem þar fer fram, að því tilskyldu að við förum vel með það sem við erum að gera og högum okkur þannig að við séum traustsins verð.