149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

RÚV í samkeppnisrekstri.

[10:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt Fréttablaðinu í gær segir ráðherra að brýnt sé að RÚV stofni dótturfélag um samkeppnisrekstur og að stjórn fyrirtækisins og stjórnendur séu að vinna að því.

Þetta myndi hafa það í för með sér að RÚV yrði af 400 milljónum, m.a. vegna reglna um meðferð virðisaukaskatts og samsköttun. Samkvæmt mínum heimildum er þetta ekki rétt. Stjórnendur RÚV hafa hins vegar unnið í nánu samstarfi við ráðuneytið undanfarin ár við að útfæra 4. gr. í lögum um RÚV og brugðist hefur verið við athugasemdum um samkeppnishluta fyrirtækisins, m.a. með því að aðskilja hann frá öðrum hluta í bókhaldi. Mér skilst að skilyrði ESA séu þegar uppfyllt.

Ráðherra virðist samt ætla að neyða félagið til að gera stórtækar breytingar á rekstri sem mun kosta þetta háa upphæð án þess að fyrir liggi rökstutt álit eða hver ávinningurinn sé. Við þetta bætist svo 500 millj. kr. skerðing á tekjum RÚV sem leiðir af tillögu ráðherrans um minni hlutdeild á auglýsingamarkaði.

Fólk getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á tillögum og tilfallandi yfirlýsingum ráðherrans. En ég spyr hvernig í ósköpunum hún ætli að bæta RÚV upp 1 milljarðs kr. tekjutap. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma nú upp og segja að fundnar verði leiðir til þess eða að þetta verði gert einhvern veginn, við þurfum að fá svarið núna. Ætlar hæstv. ráðherra kannski að láta RÚV draga úr starfsemi sinni þvert á vilja 85% landsmanna? Þetta er a.m.k. lækkun sem mun hafa víðtæk áhrif á rekstur RÚV ef af verður.

Hæstv. ráðherra sagði bara fyrir nokkrum dögum: Við viljum áfram öflugt Ríkisútvarp.

Er kannski ekkert að marka hæstv. ráðherra?