149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

verksvið forstjóra Barnaverndarstofu.

[10:46]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Mér er mikil ánægja að taka þetta mál enn einu sinni upp hér við hv. þm. Halldóru Mogensen, enda talsvert langt síðan við ræddum þetta síðast. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður rakti í sínu máli, að niðurstaða óháðrar úttektar sem unnin var af tveimur óháðum lögfræðingum var sú að velferðarráðuneytið hefði ekki staðið sína plikt í þessu og hefði m.a. brotið á réttindum Braga Guðbrandssonar við vinnslu málsins. Í framhaldi af því kom beiðni frá Braga Guðbrandssyni um að ákveðinn hluti málsins yrði tekinn upp að nýju, enda aðilar málsins annars vegar forstjóri Barnaverndarstofu og hins vegar umræddar barnaverndarnefndir. Var óskað eftir því að þetta Hafnarfjarðarmál yrði tekið upp. Af hálfu ráðuneytisins var fallist á það.

Í framhaldinu voru þau skilaboð sem ég fór með til ráðuneytisstjóra í mínu ráðuneyti að tryggja að hlutleysis væri gætt í þeirri úttekt sem yrði þá unnin í þessu máli. Ráðuneytið samdi við Kristínu Benediktsdóttur um að sjá um þá vinnu og vera ráðuneytinu innan handar í endurupptökunni. Það kemur fram í frétt ráðuneytisins sem er á vefsíðu þess í dag. Fulls hlutleysis hefur þar verið gætt og það var samið við þennan ágæta lögmann, Kristínu Benediktsdóttur, um að sjá um málið fyrir hönd ráðuneytisins og svara þar af leiðandi þessu bréfi með niðurstöðunni. Niðurstaða hennar er sú að ráðuneytið eigi að draga þetta til baka og láta málið falla niður líkt og fram kemur í frétt á vefsíðu velferðarráðuneytisins.

Ég hvet velferðarnefnd til að skoða þetta mál og kalla þá Kristínu Benediktsdóttur til sín og ráðuneytisstjóra og yfirstjórn ráðuneytisins til að skoða þetta mál, hvort sem er þá á lokuðum fundi eða opnum fundi (Forseti hringir.) vegna þess að þetta mál var ansi mikið fyrir opnum tjöldum á sínum tíma. (Forseti hringir.) Vonandi er málinu lokið með þessari úttekt og fulls hlutleysis var gætt í því.