149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Fyrr á þessu ári, nánar tiltekið hinn 12. júní sl., var samþykkt tillaga til þingsályktunar um skattleysi uppbóta á lífeyri. Flutningsmenn voru þingmenn Flokks fólksins og einn fulltrúi frá hverjum stjórnmálaflokki sem sæti á á Alþingi. Málið var samþykkt samhljóða. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þá þingsályktun:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp, eigi síðar en 1. nóvember 2018, sem leysi undan skattskyldu uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Við frumvarpsvinnuna verði m.a. haft samráð við félags- og jafnréttismálaráðherra með það að markmiði að tryggja að skattleysi uppbóta á lífeyri skerði ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.“

Nú ber svo við að málið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur að eiga sér eðlilegar skýringar, sem út af fyrir sig væri fróðlegt að heyra, en umfram allt vil ég spyrja ráðherra hvað líði undirbúningi málsins og hvenær hann áformi að leggja fram það frumvarp sem Alþingi fól honum að leggja fram eigi síðar en 1. nóvember 2018.