149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvers vegna eiga alþingismenn að ákveða verð á fiski? Hvers vegna eigum við að ákveða það hér í þessum sal? Hvers vegna látum við ekki markaðinn ráða eins og við gerum þegar við ákveðum verð á annarri vöru? Er ekki heppilegast að nýta markaðslögmálið þegar verið er að ákveða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind og bjóða út sérleyfin og útfæra tilboðsleiðina síðan með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða?

Einn af kostum tilboðsleiðar eða leigugjalds sem greitt er fyrir aflahlutdeildir er að það sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum við ákvörðun leiguverðs. Þetta er gegnsæ, fyrirsjáanleg og skiljanleg leið sem víðtæk reynsla er af í viðskiptum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna eigum við alþingismenn að ákveða verð á fiski?