149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram að alþingismenn ákveða ekki verð á fiski. Þeir hafa ekki gert það í núgildandi kerfi og munu ekki gera það í því kerfi sem við ræðum hér. Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta sér fullyrt hér og ég bið hv. þingmann að rökstyðja það með hvaða hætti hún kemst að þeirri niðurstöðu að þetta hljóði upp á það að þingmenn fari að setjast yfir það að ákveða verð á fiski.

Verð á fiski, samkvæmt þessu frumvarpi, ræðst á markaði og álagningunni er háttað eftir upplýsingum sem ríkisskattstjóri fær af markaði. Getur þetta orðið eitthvað betra? Ákvörðun og umræða um leigugjald eða uppboð, eða guð má vita hvað, er bara allt annað. Það er algjörlega órökstudd fullyrðing, hv. þingmaður, að halda því fram að við eigum að sitja hér í þessum virðulega og góða sal og fara að þrátta um það hvort verð á þorski eigi að vera 200 kr. eða 201 kr., þetta snýst ekkert um það.