149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf indælt að geta komið fólki að óvörum sem manni þykir vænt um. Það var samt ekki hugsun mín. Hv. þingmaður fór mikið út í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið, hvernig ætti að breyta heimildum og öðru því um líku, og þess vegna innti ég eftir þessu grundvallaratriði sem ég held að flestir hafi náð saman um, varðandi íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Það reynist á allan hátt, að því sem snýr að nýtingu auðlindarinnar, afburðavel. Það er gott að heyra að það er samstaða um það vegna þess að ég geld varhuga við því, m.a. vegna reynslu annarra þjóða, að hafa annað fyrirkomulag en við höfum á ráðstöfun aflaheimilda og nýtingu auðlindarinnar.

Hv. þingmaður segir að ekki sé gott að hafa misvitra stjórnmálamenn í því að ákvarða gjaldið eins og það er lagt til í frumvarpinu og því hlýt ég að spyrja: Með hvaða hætti tökum við löggjöfina frá þinginu (Forseti hringir.) varðandi gjaldtöku af sameiginlegri auðlind? Ég hefði bara viljað fá að heyra frá hv. þingmanni hvaða hugmyndir væru um það aðrar en að fá eitthvert uppboð. Einhvers staðar verður löggjafinn að koma að og reglurnar að verða settar.