149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:26]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson mæla um margt skynsamlega, sérstaklega um það sem er umræðuefnið hér, þ.e. veiðigjaldafrumvarpið sjálft. Raunar finnst mér vera bara býsna mikill samhljómur varðandi frumvarpið sjálft þótt ýmsir aðrir þingmenn hafi tekið þann kostinn að ræða fiskveiðistjórnarkerfið í heild í þessu samhengi. Það er einn punktur þar að lútandi sem mig langaði að spyrja hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um. Skildi ég það rétt að það sé stefna Viðreisnar að nota uppboðsleiðina eingöngu í því skyni að finna það sem hv. þingmaður kallaði markaðsvirði veiðiheimildanna, þ.e. að með því að bjóða út hluta af kvótanum á hverjum tíma sé þannig fundið viðmiðunarverð fyrir veiðigjaldið? Á að nota uppboðsleiðina í því skyni?