149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það kom fram í ræðu þingmannsins í sambandi við þessar áhyggjur að nýliðun — við erum líka að tala um samdrátt — er mjög lítil í greininni. Þó að nýir útgerðaraðilar komi inn í strandveiðar er það ekki, eins og ég var að vona að yrði, gluggi til áframhaldandi útgerðar eins og staðan er í dag. Þá spila þar inn í veiðigjöldin og sá mikli kostnaður sem fylgir því að gera út í dag og háir vextir í lánastofnunum.

Ég hef fengið það framan í mig í lánastofnun, bankastjórinn sagði: Þú hefur ekki breik í að taka lán, svo að það sé sagt, af því að ég er bara lítill, meðalstór kannski.

Þá langar mig að spyrja þingmanninn — nei, nú fór rafmagnið. [Hlátur í þingsal.] Ég hef rekið mig upp í háspennulínu af því að ég er svo hávaxinn. [Hlátur í þingsal.] Er útsendingu lokið? (Gripið fram í.)

(Forseti (GBr): Fundi er frestað.) [Ljósin kvikna aftur.]

(Forseti (GBr): Það er kannski óþarfi að fresta fundi. Við höldum áfram eins og ekkert hafi í skorist.)

Takk fyrir það, hæstv. forseti. Maður kemst kannski í fréttirnar fyrir vikið. [Hlátur í þingsal.] Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í þá sem greiða auðlindagjaldið. Eins og sagt er: Þeir greiða sem veiða. Ég er alveg sammála þingmanninum í því, þetta er í mínum huga ósanngjarnt, en gætum við í þeirri vinnu sem við erum að fara í farið fram á breytingar í því eða er það í gegnum aðra vinnu ef meiri hluti næst fyrir því?