149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Ég tek sérstaklega undir orð hans varðandi auðlindagjald á aðrar atvinnugreinar þar sem ég er fyllilega sammála honum. Auðvitað á að vera jafnræði í þessum málum eins og öðrum, þ.e. að ríkið sé að innheimta gjald í einhverju formi af nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Það er í samræmi við niðurstöðu auðlindanefndar á sínum tíma að mjög mikilvægt sé að tryggja þetta sameiginlega eignarhald með skýrum hætti, að þessar auðlindir séu vissulega sameiginlegar auðlindir og í sameiginlegri eigu þjóðarinnar, og til þess þurfi m.a. að tryggja eðlilega gjaldheimtu fyrir nýtinguna en um leið að tryggja bæði eignarhald þjóðarinnar og að um tímabundna nýtingarsamninga sé að ræða.

Nú er hvorki í þessu frumvarpi né í núgildandi lögum tekið á spurningunni um tímabundinn nýtingarrétt, sem er eitt af þessum grundvallaratriðum í niðurstöðu auðlindanefndar á sínum tíma. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé þá sammála eða ósammála þeirri niðurstöðu að horfa beri til þeirra niðurstaðna.

Síðan veltir maður alltaf fyrir sér, í ljósi þess að flokkur hv. þingmanns hefur verið í ríkisstjórn hér býsna drjúgan hluta þess tíma sem liðinn er frá því að auðlindanefnd skilaði sinni niðurstöðu fyrir 18 árum: Af hverju hefur ekkert verið gert með auðlindagjaldtöku á aðrar atvinnugreinar eins og t.d. orkuiðnaðinn hjá okkur og í seinni tíð umræðuna um einhvers konar auðlindagjaldtöku á ferðaþjónustu fyrir þá nýtingu á þeirri sameiginlegu auðlind sem náttúran sannarlega sýnist vera?