149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:57]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Já, það er rétt, það er mikil samþjöppun í krókaaflamarkskerfinu. En innan þeirra marka eru líka stórar útgerðir, á þeirra mælikvarða, þess kerfis. (Sjútvrh.: Já, ég veit það.)

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hefur samþjöppun verið í greininni í ansi mörg ár og fyrir því eru margar ástæður. Eins og ég kom inn á er það líka þessi neikvæða umræða. Menn selja sig í burtu á meðan þeir hugsanlega geta, hugsa þá að það eigi örugglega að fara að taka þetta af. Það hefur oft verið þess vegna sem menn hafa selt sig út úr þessu.

Þegar lögin komu á 2012 sáu menn það í hendi sér að litlar og meðalstórar útgerðir myndu varla ráða við gjaldið. Þá var það sett á sem við köllum afslátt, frítekjumark, ég man ekki hvað það var kallað þá, og síðan skuldaafslátturinn, til þess að koma til móts við þessa stærð af útgerðum vegna þess að þær sitja ekki við sama borð og stóru útgerðirnar. Það er bara þannig þó að menn hafi talað um að útreikningar sýni annað.

Þetta var reyndar á mjög erfiðum tímum í þjóðfélaginu en þá var krónan líka sterk og hærra verð fékkst fyrir þorskinn, það kom á móti. Jú, okkur er vandi á höndum en mér finnst að líta þurfi á þetta eins og það er miðað við stöðu hvers og eins útgerðarflokks fyrir sig.