149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:03]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem sjálfur oft með mjög lélegar samlíkingar þannig að ég þekki þetta vandamál. Ég er sammála hv. þingmanni, auðvitað er æskilegt að við búum við sjávarútvegskerfi sem getur staðið undir greiðslum af auðlindagjöldum og auðvitað er það jákvætt.

Hins vegar er ekki rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé ákveðið með markaðsmekkanisma vegna þess að verið sé að skoða tekjur og hagnað fyrirtækis eftir að ýmsir liðir hafi verið dregnir frá, liðir sem eru ákveðnir pólitískt, og síðan sé uppreiknað með einhverjum hætti, sem er ákveðið pólitískt, og svo komist að einhverri niðurstöðu um það hvaða krónutala eigi að vera per kíló með reikniaðferð sem er ákveðin pólitískt. Þetta er ekki markaðsaðferð til að ákveða gjald heldur pólitísk aðferð.

Jú, jú, vissulega kemur ein tala frá hverju fyrirtæki inn í þetta sem er ekki pólitískt ákvörðuð heldur ákvörðuð á markaði og það er heildarhagnaðurinn en það er ekki hægt að horfa á þetta kerfi og segja að það sé ekki ákveðið með pólitískum hætti. Það er bara ekki hægt. Jú, það er kannski hægt að segja það en þá er það bara ekki satt.

Það sem er verið að tala um þegar fólk er að tala um uppboðsleið er ekki endilega að tala um uppsjávarstofna, tala um kolmunna og síld, nei, nei, það er verið að tala um að þróa uppboðsaðferðir í samræmi við þá fræðigrein sem uppboðshönnun er, uppboðsaðferðir sem stuðla að því að heimildirnar séu boðnar upp til að fá fram markaðsverð fyrir fiskinn, markaðsverð sem ákveður hvað er greitt til ríkisins fyrir þær veiðiheimildir en sem gæti að sama skapi hjálpað ef við erum með tvískipt kerfi þar sem aðeins hluti fer í uppboð (Forseti hringir.) til að meta hvernig allt hitt ætti að vera verðlagt. Þá erum við búin að taka pólitíkina svolítið úr sambandi í þessu samhengi frekar en að skálda upp reikniaðferðir eftir okkar eigin höfði.