149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjald. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þingmenn standa hér í þingsal að ræða þetta mál. Það er sennilega búið að vera deiluefni um áratugaskeið hvert veiðigjaldið skuli vera og hvernig það skuli reiknað.

Það er kannski meginvandamálið í allri þessari umræðu. Við erum sífellt í þeirri stöðu að þingið eigi að hafa skoðun á því hvort veiðigjaldið sé rétt akkúrat þessa stundina, hvort það skili þeirri krónutölu sem er sanngjörn hlutdeild þjóðarinnar í sameiginlegri auðlind eða rentunni af sameiginlegri auðlind. Mér finnst gjarnan í þessari umræðu að öllu ægi saman og það er kannski ágætt áður en lengra er haldið að velta aðeins fyrir sér þeim grundvallaratriðum sem hafa verið mörkuð í þessari umræðu í gegnum tíðina.

Nær allar þær faglegu nefndir sem hafa farið yfir þessi mál á undanförnum tveimur áratugum eða svo hafa komist að þeirri niðurstöðu að í fyrsta lagi væri algjörlega nauðsynlegt að tryggja að sjávarauðlindin og ekki aðeins sjávarauðlindin heldur náttúruauðlindir almennt væru sameiginleg eign þjóðarinnar. Það snýr annars vegar að því ákvæði sem lengi hefur verið beðið eftir að verði fært í stjórnarskrána um að tekin séu af öll tvímæli um eignarhald þjóðarinnar á þessum sameiginlegu auðlindum en hins vegar hefur verið fjallað ítarlega um það í þó nokkrum fjölda nefnda hvernig ætti að hátta leyfisveitingum til nýtingar á þessum auðlindum og hvernig ætti að innheimta sanngjarnt gjald fyrir.

Í flestum tilvikum sýnist mér niðurstaðan hafa verið sú sama. Æskilegt væri að nýtingarheimildin væri tímabundin með skýrum hætti og að gjaldtaka endurspeglaði með einhverjum hætti tímalengd nýtingar. Með öðrum orðum, því lengri nýtingartími, því hærri gjaldtaka væntanlega. Enda skapar það ákveðinn fyrirsjáanleika og stöðugleika fyrir þær atvinnugreinar sem nýta þessar sameiginlegu auðlindir. Það er annað grundvallaratriði í þessari umræðu sem verður alltaf að hafa í huga. Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir fyrirtæki sem starfa við nýtingu þessara auðlinda að í rekstrarumhverfi þeirra sé fyrirsjáanleiki og stöðugleiki. Sá stöðugleiki er ekki fyrir hendi þegar stjórnmálin eru sýknt og heilagt að rífast um grundvallaratriði þessa kerfis og ég sé ekki að þetta frumvarp muni neinu breyta hvað það varðar. Hér er áfram deilt um það sama sem í mínum huga er ákveðið aukaatriði í þessu máli, þ.e. hvort sú krónutala sem hér hefur verið mörkuð sé hin eina rétta tala.

Mér leiðist umræðan um það hvort við séum að rukka of mikið eða of lítið. Mér finnst einfaldlega skynsamlegast að við látum greinunum það eftir með markaðsleiðum, og þá ekki bara sjávarútvegi heldur öðrum atvinnugreinum sem nýta sameiginlegar auðlindir, að verðleggja verðmæti nýtingarréttarins frá einum tíma til annars að teknu tilliti til afkomu líðandi stundar en ekki síður hvernig horfir í viðkomandi atvinnugrein til lengri tíma litið, sem skiptir líka máli. Þetta er ekki bara einhver stundarskattlagning á rekstrarhagnað eða einhvers konar auðlindahagnað sl. árs. Það skiptir líka máli hvernig horfur eru í umhverfi þessara greina til lengri tíma litið, hvort sem það er í sjávarútvegi eða orkugreinum eða ferðaþjónustu ef því er að skipta.

Það er auðvitað fagnaðarefni að það fiskiveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við á undanförnum árum og áratugum hafi skilað mikilli auðlindarentu í sjávarútvegi. Arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið langtum meiri en arðsemi annars atvinnulífs hér á landi í a.m.k. undangengin 15–20 ár. Það er fagnaðarefni. Þetta er ein af lykilatvinnugreinum okkar. Deiluefnið snýst á endanum bara um það hvað telst þá hin sanngjarna hlutdeild þjóðarinnar í þessari auðlindarentu. Það er alveg ljóst þegar við horfum á arðsemistölurnar að auðlindarentan er umtalsverð. Hún helgast af einu einföldu máli sem ég held að flestir ættu að skilja hér í þessum sal, hráefnið er ókeypis. Hráefni er fiskurinn í sjónum og fyrir það hráefni er einungis greitt það gjald sem telst veiðigjald. Auðvitað er sóknarkostnaður og annað því um líkt af því að sækja hann en það á við um flestar aðrar atvinnugreinar. Það eru fáar framleiðsluatvinnugreinar eins og sjávarútvegur sem búa við það umhverfi að hafa aðgang að ókeypis hráefni. Það er það sem snýr að hinni sanngjörnu hlutdeild þjóðarinnar í sameiginlegum auðlindum og hvernig við verðleggjum hana.

Þegar horft er á þetta frumvarp má alveg segja að þetta sé til bóta frá núverandi kerfi, ég held að það megi alveg hikstalaust fullyrða það. Þetta uppfyllir það skilyrði að vera nær í tíma sem er jákvætt. Það er óæskilegt að við séum að miða gjaldtöku við afkomu fyrir tveimur, þremur árum síðan eins og í núverandi kerfi. Tæknilega séð er það vissulega einfaldara í framkvæmd, en það eru líka ýmsir annmarkar á því. Það sem mér finnst í raun og veru einkenna málið frá grunni er að þetta er svona teknókratísk lausn á útreiknivanda auðlindagjalds í samt meingölluðu kerfi. Það tekur ekki afstöðu til grundvallaratriðanna sem er þjóðareignin, tímabundnar heimildir og að það sé verðlagt með einhverjum hætti á markaði hver hin sanngjarna hlutdeild sé þannig að þingið sé ekki sýknt og heilagt að deila um þau mál. Því miður virðist umræðan hafa fest í þeim punkti en ekki um það hvers konar kerfi við viljum hafa varðandi auðlindanýtingu og auðlindagjaldtöku til lengri tíma litið.

Það er heldur ekki rétt þegar talað er um það í þessari umræðu að með því að opna á umræðu um breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé verið að kollvarpa því. Það er alveg ljóst þegar horft er á niðurstöðu t.d. okkar færustu auðlindahagfræðinga — þess vegna koma þessar hugmyndir alltaf fram aftur og aftur — að það að tímabinda nýtingarsamninga til 20–25 ára kollvarpar ekki tilveru sjávarútvegs. Ég held að slíkt kerfi myndi í grunninn virka mjög svipað og núverandi kvótakerfi í frjálsu framsali. Það er talað um samþjöppun í greininni og það er alveg rétt, hún hefur orðið og mun sjálfsagt halda áfram að vera. Það er eitt af einkennum kvótakerfisins að kvótinn leitar þangað sem hagkvæmasta nýtingin á honum er. Það mun alltaf verða og verður einungis takmarkað með þeim girðingum sem við setjum og höfum sett varðandi t.d. hámarkshlutdeild í einstökum stofnum. Það yrði vafalítið sambærilegt í markaðskerfi líkt og því sem Viðreisn hefur talað fyrir og fjöldi annarra hefur talað fyrir í gegnum tíðina.

Hér eru notuð stór orð eins og þjóðnýting. Ég spyr þá bara á móti: Hvar liggur þá eignarhaldið? Er þetta ekki sameiginleg auðlind þjóðarinnar? Hvernig er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á og allir tala hér fjálglega um á tyllidögum að sé sameiginleg eign þjóðarinnar? Það er ekki þjóðnýting. Við verðum þá að finna aðra leið til þess að verðleggja auðlindarentuna í greininni, til þess að verðleggja þessa sanngjörnu hlutdeild þjóðarinnar í henni.

Mér er líka spurn varðandi nauðsyn þess að fara svo hratt í breytingar á þessu kerfi, þetta er alltaf sett fram þannig að það þurfi að taka ákvörðun helst bara í næsta mánuði. Hér er talað um afkomu greinarinnar, notuð sterk lýsingarorð og lýst einhvers konar krísuástandi í atvinnugreininni. Það er alveg rétt að sjávarútvegur líkt og allar aðrar útflutningsgreinar landsins hefur goldið fyrir sveiflur í gengi krónunnar og það hefur verið sterkt á undanförnum misserum, en það er ágætt að hafa það samt í huga á þessum degi, í lok september 2018, að gengið hefur veikst og aflaverðmæti sjávarútvegs á fyrstu átta mánuðum þessa árs er 23% meira en það var á sama tíma í fyrra og við erum að tala um afkomutölur greinarinnar á síðasta ári.

Við höfum fleiri augljós dæmi um bætta afkomu greinarinnar sem er fagnaðarefni, t.d. í fjárfestakynningu vegna sölunnar á Ögurvík til HB Granda. Þar kemur fram að EBITDA fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum þessa árs er sambærileg því sem var á öllu síðasta ári. Það sýnist mér vera nokkuð skýrt merki um að afkoma greinarinnar sé að batna og það verulega. Það er fagnaðarefni en um leið er kannski ekki tilefni til einhvers konar neyðarráðstafana til þess að koma til móts við versnandi stöðu greinarinnar.

Það er þetta sem ég furða mig í raun og veru mest á í þessari umræðu allri. Það er aldrei talað af jafn miklum innblæstri um einhvers konar neyðaraðstoð gagnvart öðrum atvinnugreinum þegar þær eru í vanda. Ferðaþjónustan er í verulegum afkomuvanda, m.a. út af sterku gengi krónunnar. Lengi hefur verið bent á það að hugverkaiðnaðurinn okkar, tækni- og sprotafyrirtækin, hefur í raun og veru ekki vaxið neitt sem heitið getur á undanförnum fjórum árum út af sterku gengi krónunnar. Ég hef ekki séð neinar ráðstafanir af hálfu þessarar ríkisstjórnar né fyrri ríkisstjórna til þess að bregðast við þeim vanda. Enda eiga menn ekki að sérhanna einhverjar skattbreytingar fyrir einstakar atvinnugreinar til þess að bregðast við því sem er sameiginlegur vandi okkar allra: Óstöðug mynt með sínum háa vaxtakostnaði. Tökum á rót vandans sem er myntin, en það má víst ekki ræða hér.

Það er ýmislegt sem mætti huga að í tæknilegum útfærslum þessa frumvarps. Auðvitað staldrar maður kannski fyrst við það, það er í það minnsta skemmtileg tilviljun, að niðurstöðutalan í þessu frumvarpi skuli vera liðlega 7 milljarðar sem er sama tala og ríkisstjórnin gerði ráð fyrir í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það segir mér bara í einföldu máli að þetta frumvarp var frá upphafi reiknað til að skila 7 milljarða niðurstöðunni, óháð öllum öðrum stærðum í þessu. Ég velti því bara fyrir mér hvernig sú aðferðafræði muni síðan halda fram á veginn sem kannski skiptir öllu máli. Ég ætla ekki að festa mig í þeirri umræðu hvort auðlindagjaldið akkúrat í punkti sé of hátt eða lágt, ég myndi frekar kjósa að markaðurinn fengi að verðleggja það.

Bókhaldslega er erfitt að ætla að aðskilja afkomu samtvinnaðrar útgerðar og vinnslu. Það er alveg sama hversu miklar heimildir skattyfirvöld fá til rannsóknar og upplýsingaöflunar, það er bara verulegur freistnivandi í því að færa kostnað af vinnslunni yfir á útgerð. Það er mjög erfitt í framkvæmd að ætla að skattleggja afkomu af hluta starfseminnar líkt og hér er lagt upp með. Ef marka má orð hv. þm. Teits Björns Einarssonar verður að líta svo á að þetta sé bara fyrsta skrefið á þeirri vegferð, við séum í raun og veru að stefna í sértækan tekjuskatt á hvert útvegsfyrirtæki fyrir sig. Það mun magna þennan vanda enn frekar upp. Síðan virðast vera ýmsar áætlaðar stærðir í þessu, t.d. sem snúa að fyrningum, að auka verðmæti í uppsjávarafla, draga úr verðmæti á vinnsluskipum. Allt virðast þetta vera, getum við sagt, áskotstölur, og ekki mjög traustur grundvöllur að baki. Það er aldrei sérstaklega gott þegar við erum komin út í gjaldlagningarkerfi sem byggir á svona áskoti á einstaka kostnaðarþætti í þeirri starfsemi sem verið er að leggja gjaldið á. Enda finnst mér það vera grundvallarvandi þessa frumvarps að það er verið að færa auðlindagjaldtöku yfir í einhvers konar sérstakan tekjuskatt. Hvernig ætlum við að útfæra það á aðrar atvinnugreinar þegar fram í sækir? Það hlýtur að vera grundvallaratriði þegar við ætlum að tryggja þjóðinni sanngjarna og eðlilega hlutdeild í auðlindarentu einstakra atvinnugreina sem byggja afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda að við séum sannarlega að leggja gjöld á auðlindarentuna, við séum að rukka fyrir þennan nýtingarrétt. Ekki að þetta sé einhver sjálfstæður, sérstakur tekjuskattur á einstaka atvinnugrein.

Þess vegna óttast ég að afleiðingin af þessu máli, nái það fram að ganga, verði einfaldlega áframhaldandi rifrildi um það sama, hvort þetta sé rétta gjaldtakan eða ekki. Ég hygg að það væri talsvert skynsamlegra ef við færum í þá vinnu, í breiðu pólitísku samstarfi og samráði sem hefur algjörlega skort í þessu máli, að finna nýja og betri leið til gjaldtökunnar þar sem verðlagning á auðlindarentunni frá einum tíma til annars ráðist á markaði og endurspegli þannig afkomu atvinnugreinanna, bæði sjávarútvegs og annarra, frá einum tíma til annars sem og langtímahorfur í þeim.

Svo er auðvitað sjálfstætt áhugamál hversu oft ýmsir flokkar skipta um skoðun í þessu máli og það virðist oft skipta máli hvort þeir séu í stjórn eða stjórnarandstöðu eða jafnvel með hverjum þeir séu í stjórn, hvort þeir séu fylgjandi þessu kerfinu eða öðru, en ég ætla nú ekki að fara nánar út í þá sálma hér. En það væri ágætt ef við næðum að ræða þessi atriði í grundvallaratriðum en ekki festast í krónutölum.