149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:28]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Það vekur athygli mína að hv. þingmaður svaraði því ekki beint hvað það er nákvæmlega við frumvarpið sem hann vill ekki taka afstöðu til. Ég átta mig á því að hann er á móti hugmyndafræðinni, hann hefur farið í gegnum það, og vissum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. En nú renna veiðigjöld út um næstkomandi áramót og verða engin að óbreyttu. Skil ég hv. þingmann rétt að hann muni koma hér fyrir þann tíma með alvörutillögur, fullmótaðar tillögur um breytt kerfi? Það verður fróðlegt að sjá hvaða tillögur Viðreisn hefur í þeim efnum.

Það er annað atriði sem mig langar að spyrja út í fyrst hv. þingmaður vill ekki fara í umræðu um hvað er rétt krónutala í þessu. Hann kom inn á það í ræðu að arðsemi í sjávarútvegi væri góð, sjávarútvegur stæði vel. ef ég skildi hann rétt, og það er mikilvægur punktur. Framleiðni í sjávarútvegi er sem betur fer alveg gríðarlega góð. Sjávarútvegurinn er sem betur fer samkeppnisfær á alþjóðlegum vettvangi. Þá er spurning mín til hv. þingmanns: Telur hann framleiðnina í sjávarútvegi vera of háa? Vill hann mögulega lækka hana? Er hann sammála því að stjórnvöld geti á einhverju tímamarki með of íþyngjandi skattlagningu eða flóknu regluverki hreinlega dregið úr framleiðninni? Er hann sammála því?