149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:42]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Sitt sýnist hverjum um veiðigjöld, svo mikið er víst. Sumir vilja leggja hátt gjald á greinina, aðrir lægra og sífellt kemur upp ágreiningur um hver sé sanngjarnasta leiðin til að innheimta gjaldið. Stefna okkar í Viðreisn er alveg skýr hvað það mál varðar. Í fyrsta lagi teljum við rétt að innheimta gjald fyrir afnot af auðlindinni og í öðru lagi teljum við rétt að gjaldið hverju sinni endurspegli raunverulega afkomu fyrirtækja í greininni. Við teljum að besta leiðin til að ábyrgjast slíka endurspeglun sé að gera tímabundna samninga við fyrirtæki í sjávarútveginum, setja lítinn hluta kvótans á uppboð á ári hverju og að ríkið taki gjald sitt í gegnum það uppboð til að tryggja raunverulegt markaðsvirði hverju sinni. Ágóðinn af því skilar sér síðan aftur að hluta til þeirra byggða þar sem verðmætin sköpuðust. Við teljum einfaldlega ekki að alþingismenn og ráðherrar eigi að geta tekið pólitíska ákvörðun um hversu hátt gjaldið eigi að vera og að ekki eigi að taka slíka ákvörðun eftir hentisemi þeirra sem sitja í stjórn á hverri stundu.

Aðrir þingmenn Viðreisnar hafa fjallað um ýmis önnur atriði sem okkur finnst varhugaverð við frumvarpið. Ég ætla hins vegar að nýta tíma minn til að beina athygli þingsins að þeirri hættu sem ég tel að kunni að steðja að sameignarhugtakinu, en það er mín skoðun að frumvarpið kunni að vega verulega að því verði orðalag ekki lagfært.

Í 1. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

,,Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“

Í því samhengi er verulega áhugavert að líta til 1. mgr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem hefur verið vísað í nokkuð oft í dag, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Glöggir lesendur hafa líklega tekið eftir því að í 1. gr. frumvarpsins sem liggur fyrir í dag vantar nokkur lykilorð sem er að finna í hinum lögunum, lykilorð eins og ,,sameign íslensku þjóðarinnar“ og „myndar ekki eignarrétt“ eða ,,óafturkallanlegt forræði“.

Hv. þingmenn. Við nánari skoðun kemur í ljós að munurinn á orðalaginu getur haft gríðarleg áhrif. Ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en svo að um sé að ræða tilraun til að grafa enn frekar undan eignarrétti þjóðarinnar, að kjörnir fulltrúar séu jafnvel á þeirri skoðun að ekki sé um þjóðareign að ræða til að byrja með.

Lengi hafa nokkrir af okkar helstu sérfræðingum í lögum deilt um það hvernig eignarrétti aflaheimilda sé raunverulega háttað. Til að svæfa hv. þingmenn ekki snýr deilan í einfölduðu máli að því hvort réttindin séu í raun afturkallanleg eða ekki, þrátt fyrir skýrt orðalag 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki óafturkallanlegt forræði yfir þeim. Sama þótt það virðist samkvæmt orðanna hljóðan vera skýrt að um sé að ræða sameign þjóðarinnar hefur mörgum sérfræðingum ekki þótt það skipta öllu máli.

Mikilvægi orðalagsins í ákvæðinu kemur hins vegar skýrt fram þegar lesnir eru tveir dómar Hæstaréttar sem fjölluðu um akkúrat þetta málefni. Í svokölluðum Vatneyrardómi frá árinu 2000 segir, með leyfi forseta:

,,Til þess verður og að líta að samkvæmt 3. málslið 1. gr. laganna myndar úthlutun veiðiheimilda ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra manna yfir þeim, eins og áður segir. Aflaheimildirnar eru þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald …“

Í þó nokkuð nýlegri dómi frá árinu 2013 gekk Hæstiréttur skrefinu lengra og segir í dómnum, með leyfi forseta, að Alþingi geti, ,,ákveðið að úthlutaðar veiðiheimildir skuli innkallaðar á hæfilegum aðlögunartíma og eftir atvikum endurúthlutað“.

Sá lærdómur sem við eigum að reyna að draga af upplestri mínum er í stuttu og einföldu máli sá að orðalag 1. gr. frumvarpsins skiptir máli og mun koma til með að skipta máli á einhverjum tímapunkti í framtíðinni ef sagan á að kenna okkur eitthvað. Nú gætu menn hugsanlega ásakað mig um einhvers konar paranoju eða komið með afsakanir um af hverju ekki sé þörf á skýrara orðalag í þeirri tilteknu grein í frumvarpinu, líkt og hæstv. ráðherra gerði í byrjun dags. En ég vísa hér með slíkum rökum alfarið á bug. Lagafrumvarpið sem um ræðir varðar fiskveiðar á Íslandsmiðum og varða beint og óbeint auðlind þjóðarinnar. Verum frekar vandvirk núna og festum raunverulega trú okkar í lög heldur en fá það í bakið síðar meir í dómsalnum.

Ef stjórnmálamenn telja hins vegar ekki þörf á því að taka skýrt fram í málsgreininni að um sameign þjóðarinnar sé að ræða sem sé afturkallanleg ætti það ekki að vera of mikill hausverkur fyrir þá að bæta nokkrum orðum við greinina, þótt ekki væri nema af kurteisi og virðingu við stjórnarandstöðuna.

Þetta er mikilvægt mál og í raun algjört prinsippmál. Þau okkar sem hafa trú á því að fiskveiðiauðlindin sé í þjóðareigu eiga að standa vörð um þá trú með því að tryggja skýrleika í lögum, því að sá skilningur á undir högg að sækja.

Forsætisráðherra sagði í viðtali í gær að hún teldi stjórnarskrárákvæði um auðlindir eiga að vera skýrt. Þá ætti heldur ekki að vera neitt tiltökumál að koma í veg fyrir nokkra lagalega óvissu með því að bæta við frumvarpið ákvæði þess efnis að um sameign þjóðarinnar sé vissulega að ræða og passa þannig upp á að vilji ríkisstjórnarflokkanna, a.m.k. tveggja þeirra, endurspeglist í frumvarpinu.

Því tengdu vil ég endilega benda þingmönnum á greinargerð formanns nefndar um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni sem kom út í fyrra og má líklegast finna á vef ráðuneytisins. Í greinargerðinni má sjá í einu af fylgiskjölunum frumvarp sem unnið var í kringum árið 2014 af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem raunar er nú hæstv. samgönguráðherra, en var þó aldrei lagt fyrir þingið og ekki birt fyrr en í þessari skýrslu.

Það sem ég vil sérstaklega benda þingmönnum á er umfjöllunin sem finna má í óframlögðu frumvarpinu um lagaleg álitaefni sem gætu risið. Einnig er áhugavert að frumvarpið sjálft gengur út á að um tímabundna nýtingarsamninga sé að ræða. En ég ætla ekki að fara ítarlegar í það akkúrat núna.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í viðtali í gær að hún vonaðist eftir því að samstaða næðist um breytingar á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili þannig að samþykkt yrði auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég vil beina því til hæstv. forsætisráðherra, þótt ég taki heils hugar undir með henni, að vonir okkar og þrár um góða samvinnu á morgun duga ekki til að réttlæta óvarkár vinnubrögð í dag.