149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:50]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt í þann mund sem ég fagnaði því inni í mér að ég væri að fá skýra mynd af stefnu Viðreisnar í þessu máli, þegar ég átti orðastað við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrr í dag, ruglaði síðasta ræða mig aftur í ríminu. Ég held að ég fari nokkurn veginn orðrétt með, a.m.k. efnislega, þegar ég segi að hv. þm. Sigríður María Egilsdóttir hafi sagt rétt áðan að stefna Viðreisnar væri að setja lítinn hluta kvótans á uppboð hverju sinni og að það verð sem við það myndaðist ætti síðan að verða viðmiðunarverð við gjaldtöku ríkisins á því sem eftir lifði væntanlega af kvótanum.

Ég vil spyrja aftur eins og ég spurði hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson áðan: Á að bjóða upp lítinn hluta af kvótanum og nota það verð sem við það myndast til viðmiðunar fyrir það verð sem ríkið á að heimta af útgerðarmönnum eða á að bjóða upp allan kvótann, þ.e. á allur aflinn, allar aflaheimildirnar, að fara á uppboð eða bara lítill hluti eins og hv. þingmaður sagði áðan til að verða viðmiðun fyrir verðmyndunina að öðru leyti?

Eftir að hafa hlustað á þrjá þingmenn Viðreisnar tala um þetta mál í dag vil ég fá þetta á hreint. Á allur kvótinn að fara á uppboð? Á að henda núgildandi veiðigjaldakerfi og skipta því út fyrir allan afla á uppboð eða ekki? Á lítill hluti kvótans að fara á uppboð og mynda verð eða á allur kvótinn að fara á uppboð?