149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla að leyfa mér að tengja þetta spurningu sem var ósvarað áðan um sérstaka útgerðarflokka. Hv. þingmaður spurði hvort til greina kæmi að þetta væri ólíkt eftir sérstökum útgerðarflokkum. Ég ætla að tengja yfir á spurningu hv. þingmanns um stórútgerðirnar.

Mér finnst alveg koma til greina að það sé skoðað í þessari vinnu að huga sérstaklega að minni fyrirtækjum þar sem reksturinn getur verið þannig að krónur skipti meira máli þar en annars staðar. Mér finnst það eitt af því sem hv. atvinnuveganefnd eigi að setjast yfir í sinni vinnu. Það hefur verið talað um litlar og meðalstórar útgerðir. Það er að sumu leyti ekki mjög gott hugtak, ekki frekar en þegar hv. þingmaður vitnaði í mig um vel stæðar útgerðir. Það er ekki endilega samnefnari á milli þeirra allra. Í mínum huga er það kerfi sem við höfum í sjávarútvegi ekki síst byggðamál. Þess vegna finnst mér mjög vel koma til greina að við setjumst yfir það og skoðum það. Ég á ekki von á öðru en að það verði rætt í hv. atvinnuveganefnd.

Hvað varðar svo álag á stórútgerðir er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér er ekki bein tillaga um slíkt. Þó má nefna að það sem kallað er hér uppsjávarálag sem kemur á þau fyrirtæki sem eru í uppsjávarvinnslu, eins og hv. þingmaður þekkir, er álag sem ekki síst leggst á stærstu útgerðirnar og eingöngu á þær útgerðir.