149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:54]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki tekið undir það með hv. þingmanni að fegurðin og frelsið felist í því að við getum boðið þetta allt saman upp. Það væri allt of lítil nýting á þessari frábæru auðlind sem við eigum, (Gripið fram í.)að gefa hana bara einu sinni. Þetta er þjóðareign og hún á að vera þjóðareign um ókomna tíð. Hins vegar þarf að nýta þessa auðlind. Við viljum að hún verði áfram nýtt. Þess vegna viljum við í Viðreisn gera nýtingarsamninga til tiltekins tíma sem menn geta þá endurnýjað þegar kvótinn fer á uppboð hverju sinni. Hins vegar er þetta gjald eins og kerfið er núna pólitískt. Ef ráðherra fær að velja einhverja tölu í jöfnunni er hann faktískt að stýra niðurstöðunni. Það er heimilað í þessu frumvarpi.

Í 4. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri gerir tillögu um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns fyrir komandi veiðigjaldsár til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál …“

Hér stendur beint að ríkisskattstjóri geri tillögu um fjárhæðina en ákvörðunin er væntanlega ráðherra að lokum.