149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:55]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að reyna að segja hér áðan er að það er sama hvaða kerfi notað er, hvort það er það veiðigjaldakerfi sem við notum í dag eða það girðingauppboð sem verið hefur til umræðu hér í dag, þá er hægt að fara svo með öll kerfi að á endanum verði þau einungis pólitísk ákvörðun og jafnvel á hendi eins manns. Þetta kerfi, veiðigjaldakerfið nýja, gerir ekki ráð fyrir því, þetta fer bara eftir því sem skrifað er inn í lögin á hverjum tíma svo að segja. Þetta er ekki heilög tala, þessi 33%. Við höfum reynt að kalla þá fram hér í dag sem hafa talað um frumvarpið — er það ásteytingarsteinninn hvort talan sé 33%, 35% eða 40%?

Talsmaður Samfylkingarinnar í umræðunni hér í dag sagði að þetta væri allt í lagi ef ríkið tæki meira en helminginn, færi þá upp í 52%, 53% eða 54%. Þessu er ekki þannig fyrir komið. Það má enginn misskilja mig á þann veg að ég hafi verið að mælast til þess, vegna þess að ég veit hvernig það myndi enda, að þessar veiðiheimildir færu á frjálst girðingalaust uppboð. Þá myndi allt það gerast sem þeir helst vilja varast sem talað hafa gegn því fiskveiðistjórnarkerfi sem er í dag. Það yrði samþjöppun, það yrði samþjöppun landfræðilega, það yrði samþjöppun eftir fyrirtækjum og á endanum, girðingalaust, færi þetta svona.

Ég spyr enn hvar þessar girðingar eigi að vera. Hv. þingmaður, þingmenn Viðreisnar og þeir sem tala fyrir þessari leið, verður að upplýsa til að hægt sé að halda umræðunni áfram út í það endalausa um fiskveiðistjórnarkerfið, verður að upplýsa hvaða girðingar eigi að setja upp, landfræðilegar, viðskiptalegar. Og hvar enda þær?