149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

brotastarfsemi á vinnumarkaði.

[14:10]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og segja, eins og þingmaðurinn kom inn á, að við höfum við gripið til ýmissa aðgerða. Í júní voru samþykkt ný lög til að skerpa á öllu því sem snýr að starfsmannaleigum, keðjuábyrgð og öðru slíku. Þau lög hafa þegar tekið gildi og hluti af þeim tók raunar gildi á haustdögum þannig að menn eru að fóta sig inn í þá hugsun. Þar er hert mjög sektarákvæði sem Vinnumálastofnun getur m.a. lagt á fyrirtæki sem ekki eru samstarfsfús gagnvart stofnuninni í eftirlitsþáttum sínum.

Síðan er það svo að við höfum verið og erum að ræða að kalla alla aðila að borðinu í þeim efnum, sem er tillaga sem samþykkt var í ríkisstjórn fyrir þremur vikum, ekki aðeins eftirlitsstofnanir sem heyra undir félagsmálaráðuneytið heldur erum við líka með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármálaráðuneytið, við erum með lögregluna og skattinn ásamt aðilum vinnumarkaðar, til þess að forma hvernig við ætlum að fara í samhentar aðgerðir í því, hvernig við ætlum í sameiningu að styrkja stoðina á milli stofnananna. Sú aðgerð er í gangi. Það var bara á föstudaginn sem síðustu tilnefningar áttu að berast í hópinn sem á að forma það. Það vantaði að vísu einhverjar tilnefningar og er verið að ýta á eftir þeim, en ég vona að hópurinn geti fundað sem fyrst þannig að hægt sé í fyrsta lagi að hleypa af stað samhentu átaki. Það er númer eitt. Í öðru lagi er að undirbúa og ræða hvort ekki sé ástæða til að setja harðari viðurlög gagnvart þeim sem gerast ítrekað brotlegir um alvarlega þætti, eins og við sáum í umræddum sjónvarpsþætti.

Ég segi eins og er: Við höfum gripið til aðgerða. Við erum að grípa til aðgerða. Við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um að það verður að gerast. En lykilatriðið í því er að aðilar sem að því koma vinni saman vegna þess að annars er slagkrafturinn ekki nógu mikill.