149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[14:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst er til að taka að ég er sammála hv. þingmanni um að fleiri annmarkar eru á fiskeldislögum en bara þessi eini. Það er alveg augljóst í mínum huga að þar þarf að gera verulegar réttarbætur. Frumvarp um það efni kemur frá mínu ráðuneyti á þessu þingi.

Það er rétt að það kemur fram og hefur komið fram það sjónarmið að nefndin hafi rétt til þess að fresta réttaráhrifum en um það eru skiptar skoðanir. Í þessu tilviki kýs nefndin að túlka heimildir sínar með þeim hætti að hún hafi ekki heimild. Við getum verið sammála eða ósammála því en það er niðurstaða nefndarinnar og hún er endanleg. Þetta er bara hennar ákvörðun og niðurstaða.

Það eru vissulega aðrar leiðir. Við samningu þessa frumvarps var ráðgast við fjölda lögfræðinga um hvað væri til ráða. Þetta varð niðurstaðan. Vissulega bendir úrskurðarnefndin á að hægt sé að gera þetta með þeim hætti að Matvælastofnun tilkynni um stöðvun og það sé kæranlegt til ráðherra en þá koma upp efasemdir og við fórum yfir þær með lögfróðum aðilum. Það er álitamál hvort stjórnvaldsákvörðun sem þessi sé kæranleg til ráðherra. Meðal lögfræðinga eru skiptar skoðanir um það.

Sömuleiðis vil ég nefna að það er óljóst á hvaða grunni ráðherra ætti að fresta réttaráhrifum þegar það er skýrt í lögum að Matvælastofnun hefur ekki annan kost, skýrt að við afnám rekstrarleyfis beri að loka starfseminni.

Þetta varð niðurstaðan af þessu spjalli okkar í ráðuneytinu við lögfróða aðila.