149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Forseti hæstv. Mér að meinalausu má alveg lengja svartímann hjá hæstv. ráðherra svo lengi sem við fáum svör. En það verður að segjast eins og er að ekki er komið á hreint, hvorki eftir svör ráðherra né eftir fund okkar í atvinnuveganefnd í morgun, hvort beinlínis sé nauðsynlegt að fara þá leið. Ég óttast að við séum ekki með nægilega skýrar valdheimildir til að fara í þetta. Ég held að flestir séu sammála um að reyna að gæta meðalhófs, reyna að eyða réttaróvissu, hvort sem það er hjá fyrirtækjunum í samfélaginu fyrir vestan eða þeim sem hafa verið kærendur í málinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að mér skilst að þrýstingur hafi verið á að við kláruðum málið í dag, hvort að hann sé sammála því að keyra eigi málið í gegnum þingið í dag. Ég er mjög hugsi, sérstaklega eftir svör hæstv. umhverfisráðherra áðan. Það kom alveg skýrt fram í svari hæstv. umhverfisráðherra til þingmanns að vestan í stjórnarmeirihlutanum, hv. 7. þm. Norðvest., Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, að hann ætlar sér að taka allt að þrjár vikur í umhugsunarfrest ef kæra kemur.

Erum við að leysa vandamálið? Er verið að leysa það viðfangsefni sem málið fjallar raunverulega um? Það þarf að fá alveg skýrt fram af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra því að hæstv. umhverfisráðherra gaf til kynna að hann ætlaði að taka sér þrjár vikur í umhugsunarfrest. Hvaða misvísandi skilaboð eru þetta af hálfu ríkisstjórnarinnar? Er ekki alveg komið nóg af því að senda frá sér misvísandi skilaboð? Það er þess vegna sem fyrirspurnatímarnir eða andsvörin eru mjög mikilvæg.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja að því en um leið undirstrika að það er ábyrgðarhlutur að láta þingið koma inn í. Það að grípa til skyndilausna er ekki hjálplegt fyrir neinar atvinnugreinar, hvort sem það er fiskeldi, sjávarútvegur eða annað, til að byggja upp ábyrga ímynd til lengri tíma. Þess vegna verðum við að vanda okkur. (Forseti hringir.) Við í þinginu verðum að læra af reynslunni. Við verðum að taka okkur tíma til að gera hlutina rétt. (Forseti hringir.) Við getum líka haskað okkur, ekki málið, en við verðum vanda okkur í málinu. Þetta er risastórt mál. (Forseti hringir.) Við viljum byggja upp fiskeldi á ábyrgan hátt til framtíðar, (Forseti hringir.) þess vegna viljum við setja kröfur, hæstv. forseti.