149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. ráðherra sé argur út í þau svör sem hæstv. umhverfisráðherra veitti (Gripið fram í.) hér áðan. Hæstv. sjávarútvegsráðherra er að reyna að vanda sig í málinu og ég ætlast nú til þess að hann sé að reyna að gera það þó að það sé engan veginn verið að eyða einni eða neinni réttaróvissu. Það eru vond skilaboð út í samfélagið.

Mér finnst hins vegar umhugsunarefni að umhverfisráðherra, hann hefur heimildina, vissulega, hann getur frestað, er ekki búinn að segja þingheimi það hreint og klárt. Ætlar hann að beita heimildinni eða ekki? Þess vegna skiptir það máli fyrir okkur, hvort eigum við að taka bara þennan dag í það og keyra málið í gegn eða fá aðeins meiri tíma til þess að vanda til verka hér innan þingsins. Er til of mikils mælst? Er það?

Ég vil fá það á hreint hvað umhverfisráðherra ætlar að gera. Ef hann ætlar að taka sér þrjár vikur þá ætlast ég til að þingið megi taka sér smá umþóttunartíma til þess að við getum vandað til verka og komið með ábyrga löggjöf út á við þar sem horft er til lengri tíma og byggt undir atvinnugreinar, hvar sem þær eru.