149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Vissulega hef ég velt því verulega fyrir mér og í ráðuneytinu erum við að vinna með verkefni sem snúa að því að treysta undirstöður eftirlits Matvælastofnunar með fiskeldinu. Það er ekki vanþörf á. Eftirlit er ekki nægilega gott og það skal játast alveg hreint út. En það er annað verkefni.

Þetta er mjög takmarkað frumvarp sem liggur fyrir. Ef við horfum aðeins á umhverfisþáttinn hef ég hingað til lagt mjög mikið upp úr því áliti og þeirri vinnu sem Umhverfisstofnun innir af hendi. Hún hefur birt álit sitt á úrskurðinum sem nefndin fellir og hún er í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar að hún tekur ekki undir röksemdir úrskurðarnefndarinnar um að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hafi ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda.

Sömuleiðis kemur fram í áliti Umhverfisstofnunar, og það áréttar hún sérstaklega og telur mjög mikilvægt að komi fram, að málin snúast ekki um mengunarvarnir sem slíkar. Málið snýst ekki um burðarþol Hafrannsóknastofnunar. Málið snýst ekki um áhættu vegna erfðablöndunnar. Það er allt í þokkalegu og fínu standi.

Um hvað snýst málið? Það snýst að mati úrskurðarnefndar um formlega valkosti í umhverfismatsferli. Úr þeim stjórnsýslugalla lýtur frumvarp mitt að að reyna að bæta. Það er gersamlega óásættanlegt að stjórnvöld hafi ekki lögmætar leiðir í slíkri stöðu til að mæta og gæta meðalhófs í afgreiðslu mála sem þannig eru vaxin.