149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum sammála um alvarleika málsins og að þetta megi ekki stöðvast í þeirri stöðu sem það er núna. Ég treysti mér ekki til að fara út í lagatæknileg atriði í málinu. Ég treysti öðrum betur til þess. En reglugerð um málið kom ekki til greina því að hún gat ekki verið afturvirk, það fékk ég að heyra. Ég trúi því og treysti að þetta sé það sem gera þarf til að leysa þann hnút sem málið er í í dag. Þegar úrskurðarnefnd umhverfismála tekur þá afar sérkennilegu ákvörðun, leyfi ég mér að segja, að vera ósammála Skipulagsstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun um þau mál, með hugsanlegt landeldi, lokaðar kvíar og geldlax, þá átta ég mig ekki alveg á hver tilgangurinn er á þeim bæ. Ég verð að segja eins og er. Það ergir mig að þetta skuli þurfa að koma svona upp og segir kannski meira til um allt það sem er í kringum slíka starfsemi, hvað það getur komið í bakið á okkur sem setjum lögin. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál.

Ég hef í raun og veru enga aðra spurningu til þingmannsins. Ég þakka fyrir og er gott að heyra að við erum sammála um alvarleika málsins.