149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó einmitt eftir því sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hafði minnst á, að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir minntist á að úrskurðarnefndir væru ekki lýðræðislega kjörnar. Þá velti ég fyrir mér hvar ákveðnar línur eru dregnar. Það vill nefnilega þannig til að dómstólar eru heldur ekki lýðræðislega kjörnir. Mér finnst þetta tiltekna orðalag hv. þingmanns vera til þess fallið að grafa undan réttmæti lýðræðisstofnana sem eru ekki lýðræðislega kjörnar en þó mikilvægur partur af lýðræðissamfélagi.

Ef grafið er undan réttmæti slíkra stofnana, hvort sem við erum að tala um úrskurðarnefndir eða dómstóla eða hvað það nú er, getur það verið notað til að réttlæta hvaða inngrip sem er í hvaða mál sem er. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er það réttur skilningur hjá mér að lýðræðislega kjörnir einstaklingar muni í öllum tilfellum hafa rétt á því að grípa fram fyrir hendurnar á þeim sem eru ekki lýðræðislega kjörnir? Ef svo er, til hvers eru þá úrskurðarnefndir?