149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við öll í þessum þingsal erum samþykk því að nauðsynlegt sé að hafa úrskurðarnefndir sem hægt sé að vísa málum til og láta vega og meta. Það sem ég var að benda á áðan var að úrskurðarnefndirnar sem slíkar þurfa ekkert að fylgja eftir eða bera ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem kemur hjá þeim. Þar verða lýðræðislegir fulltrúar að bera ábyrgð ef menn telja mál þess efnis að það gæti orðið mikill skaði fyrir ríkið sjálft, samfélögin, fyrirtækið og fólkið.

Í þessu tilfelli hefur hæstv. ráðherra ekki möguleika á að mæta niðurstöðu úrskurðarnefndar með meðalhófi og gefa viðkomandi fyrirtækjum tækifæri á að leggja inn nýja umsókn þar sem því er bætt inn í sem á vantar. Það hlýtur að vera tilgangur stjórnsýslunnar að láta fyrirtækin fá möguleika á því að gera sínar umsóknir sem bestar en þá þarf skýrleikinn líka að vera sem bestur þegar verið er að vinna svo viðamikið mat sem mat á umhverfisáhrifum í frummatsskýrslu.

Skýrleikinn virðist ekki hafa verið nægur. Þess vegna hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar að kalla það fram að vel sé staðið að þessum málum, fyrirtækjunum gefist kostur á að gera þetta með þeim hætti að ásættanlegt sé miðað við kröfur og niðurstöðu úrskurðarnefndar. Það hefur enginn möguleika á að gera þetta, af því að Matvælastofnun verður bara að loka, nema ráðherra en hann hefur ekki til þess heimild.