149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni heldur svaraði nákvæmlega á sama hátt og hún svaraði hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur rétt áðan sem spurði allt annarrar spurningar.

Það sem ég spurði var: Er það tilfellið að lýðræðislega kjörnir einstaklingar hafi alltaf umboð til að grípa fram fyrir hendurnar á þeim sem eru skipaðir?

Ég spyr af ýmsum góðum ástæðum. Ein þeirra er hreinlega sú að hæstv. umhverfisráðherra er ekki lýðræðislega kjörinn, heldur er hann skipaður. Með leyfi forseta, svo ég vitni í hæstv. ráðherra, sagði hann að ríkisstjórninni væri óheimilt að hafa áhrif á ákvarðanir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkt væri brot á alþjóðasamningum.

Þetta sagði umhverfisráðherra að vísu þegar hann var í öðru hlutverki árið 2016. Engu að síður er þetta mikilvægur punktur frá mikilvægum ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem verður að hafa í huga við þessa málsmeðferð.

Ef það sem hv. þingmaður er að segja, að þeir sem eru ekki lýðræðislega kjörnir séu þar af leiðandi ekki með umboð fram yfir þá sem eru lýðræðislega kjörnir, er kannski spurning hvort vald hæstv. umhverfisráðherra skipti einhverju máli í þessu samhengi. Mér finnst við verða að fá mjög skýr svör við þessari spurningu vegna þess að þetta er lykilatriði.

Það er rétt að úrskurðarnefndir skipta gríðarlega miklu máli fyrir það hvernig málum er háttað í þessu samfélagi. Það er ekki ásættanlegt að verið sé að grafa undan starfsemi þeirra eða dómstóla eða ráðherra sem eru skipaðir en ekki kjörnir á þing vegna þess að um umboð þeirra þurfi að efast.