149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:10]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi, rekstrarleyfi til bráðabirgða, sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti fyrir áðan. Hann gerði vel grein fyrir því um hvað þetta mál snýst. Það hefur komið mjög skýrt fram í hans máli að hann hafi heimild til að fresta réttaráhrifum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Ég ætla að halda mig við að ræða það og þetta samfélag fyrir vestan.

Á meðan við tökumst hér á um formið brenna heimilin á Vestfjörðum. Atvinnulífið brennur. Bankarnir eru að loka á atvinnulífið. Samfélagið logar. Á meðan allir bíða eftir því að við klárum þetta mál stöndum við í vegi fyrir því að slökkviliðið komist á staðinn. Við erum að tefja fyrir því að hægt sé að koma í veg fyrir þá vá sem hvílir yfir og brennur á Vestfirðingum.

Atvinnuveganefnd fór þangað um daginn í heimsókn. Það var ótrúlega gagnleg heimsókn fyrir okkur öll. Það var ekki aðeins gagnlegt að sjá fiskeldið og það sem þar er verið að gera, heldur að hitta fólkið úti í bæ og ekki síst bæjarstjórnina í Vesturbyggð sem við sátum með í góða stund og ræddum málin við. Þar kom fram að unga fólkið er að flytja aftur heim út af þeirri miklu von sem það bindur við nýtt atvinnulíf á Vestfjörðum. Unga fólkið sér vonina fyrir vestan. Það er komið heim.

En það er einhver SS-sveit, sveit sérfræðinga að sunnan, sem kemur alltaf í veg fyrir að eitthvað gerist á Vestfjörðum. Sérfræðingarnir að sunnan koma alltaf í veg fyrir atvinnulífið og samgöngurnar og að virkjanir rísi á Vestfjörðum. Ég held að við þurfum að taka Vestfirðinga og Vestfirði í faðminn og hjálpa þeim í gegnum þann ólgusjó sem þeir eru í núna. Það er okkar hlutverk. Ræðum það sem við þurfum að gera til að hjálpa þeim.

Veitum ráðherra heimild til að fresta þessum réttaráhrifum. Gerum það sem fyrst. Stöndum vel að því og síðan munum við örugglega hafa tækifæri til að ræða almennt um fiskeldi. Hér er ekki verið að gera neinar athugasemdir við aðbúnað eða umhverfi fiskeldisins í þessu máli. Umhverfisstofnun eða úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ekki gert neina athugasemd við umhverfið, öðru nær, heldur voru gerðar athugasemdir við valkostagreiningu vegna umhverfismatsins. Ég vona að við getum verið sammála um að í því máli á engan afslátt að gefa en í þessu máli þurfum við að hraða okkur svo við getum slökkt þá elda sem loga á Vestfjörðum.