149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem ekki rétt, ef valkostir eru teknir með í mati á umhverfisáhrifum þá myndu þeir einmitt í þessu tilviki snúast að öðrum leiðum í fiskeldi, en ekki hvað? Auðvitað er það þannig. Ef það hefði verið staðið rétt að þessari matsskýrslu að mínu mati þá hefðu þessir valkostir átt að vera þar með og þeir hefðu auðvitað snúið að, hversu raunhæfir sem þeir voru, öðrum leiðum í fiskeldi. En hvað um það.

Ég er auðvitað ekki mótfallinn þessu boði núna að við fundum saman umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd, alls ekki. Ég er alltaf til í að ræða frumvarp sem er til afgreiðslu, en við förum örugglega ekki út í hörkuumræður um umhverfismál á þessum fundi. Við reynum að afgreiða þetta frumvarp vegna þess að það eru tafir sem við óttumst m.a., því að við vitum ósköp vel hvernig nefndirnar vinna. Við þurfum að fá gesti. Við þurfum að ræða þetta í nokkra daga áður en við getum komið með einhvers konar álitsgerð um þetta tiltekna frumvarp. Við erum ekki að tala um umhverfismál og fiskeldi. Við erum að tala um ágalla í meðferð stjórnsýslunnar og stofnana á skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Þess vegna sagði ég að það eina sem skiptir máli í þessu og varðar í sjálfu sér umhverfismál er þetta eina orð, umhverfisáhrif, mat á umhverfisáhrifum. En að öðru leyti skiptir ekki máli hvort þarna er verið að ræða um geldfisk eða svo og svo mikla mengun af fiskeldi í sjó, það er bara ekki það sem við erum að ræða um eða afgreiða. Við erum að reyna að sjá til þess að þessi ágalli komi hvorki fiskeldinu sjálfu né samfélaginu öllu, né náttúrunni, til skaða með því að afgreiða þetta tiltekna frumvarp hér og nú.