149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég get ekki svarað því. Það hefði þurft einhvern fyrirvara á því að leita upplýsinga um það. En eins og eðlilegt er vitum við öll að verið er að bregðast við ákveðnum atburðum sem gerðust varðandi leyfi ákveðinna fyrirtækja. Rekstur þeirra er í miklu uppnámi, byggðin er í miklu uppnámi, fjárhagslegir hagsmunir eru miklir þarna undir. En eftir mikla skoðun í ráðuneytinu og meðal sérfræðinga var talið eðlilegt að hæstv. ráðherra gæti mætt þessu í almennri löggjöf með því að ráðherra hefði slíka heimild, að ef ríkar ástæður væru fyrir hendi væri hægt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða.

Eins og hv. þingmaður veit, og var farið mjög vel yfir í nefndinni, töldu þeir lögspekingar sem komu fyrir nefndina að eðlilegast hefði verið að fara þá leið sem gert er með þessu frumvarpi um almenna löggjöf. Þegar bent er á að vísað sé í þau leyfi sem hafa fallið úr gildi fyrir gildistöku laganna vita allir hv. þingmenn hér inni hverjir munu koma þar til greina hvað það varðar að óska eftir því að fá bráðabirgðaleyfi til að mæta þeim fordæmalausu aðstæðum sem fyrirtækin og byggðin fyrir vestan eru í.