149. löggjafarþing — 16. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[23:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég sit hjá af sömu ástæðum og kollegi minn, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, en vil nefna að við erum að bregðast við klúðri. Mögulega hefði aldrei átt að leyfa laxeldi í opnum sjókvíum á þessu svæði, bara yfir höfuð. Miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag, miðað við reynslu annarra þjóða og vitandi hvaða óafturkræfu áhrif þetta gæti haft á lífríki á svæðinu þá hefði niðurstaðan mögulega átt að vera, hefði það verið skoðað nægilega, að þeir fengju ekki rekstrarleyfi.

En við erum komin á þennan stað. Ég vil líka nefna að við erum komin í ofboðslega furðulega stöðu þegar heilu bæjarfélögin eru að leggjast á hliðina af því að ákveðnir aðilar eru mögulega að missa rekstrarleyfið. Það er nokkuð sem við þurfum að skoða fyrir framtíðina, hvort það sé ekki eitthvað sem við þurfum að breyta.