149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

námskeið um uppeldi barna.

[10:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég skrifaði niður eftir henni þessar þrjár tegundir af uppalendum, leiðandi, skipandi og eftirlátssamir. Ég held að þetta séu líka þrjár tegundir af stjórnvöldum ef út í það er farið, vegna þess að besta leiðin til þess að koma á breytingum, hvort sem það er í uppeldi eða pólitík, er að ganga á undan með góðu fordæmi og leiðandi hætti.

Það er ekki bara í lýðheilsustefnunni heldur líka í geðheilbrigðisáætlun sem fjallað er sérstaklega um uppeldi og menntun og aðkomu að því að gera ungt fólk læsara á tilfinningar sínar og líðan o.s.frv., en um leið að styðja foreldra og skóla — vegna þess að það þarf þorp til þess að ala upp barn — í að stuðla að því, eins og nokkurs er kostur, að börn séu læs á eigin líðan, geti tjáð hana o.s.frv. og foreldrar fái þann stuðning sem þarf í að halda utan um sitt fólk.

Hvað varðar nákvæmlega þessa aðgerð sem hv. þingmaður spyr um er það nokkuð sem ég þarf að skoða því að hún er væntanlega í samstarfi fleiri ráðuneyta. Þó að lýðheilsuáætlun sé á vettvangi embættis landlæknis, samkvæmt skilgreiningu, þá er þetta, eins og gefur að skilja, sameiginlegt verkefni. Að hluta til erum við að sjá um þessi mál í tengslum við mæðravernd. Nú er sérstakt áherslumál í formennskuáætlun ráðherranefndar Norðurlandaráðs, Fyrstu þúsund dagarnir í lífinu, þar sem lögð er áhersla á að halda utan um fyrstu þúsund daga barnsins, fyrstu þrjú árin í raun og veru, og uppeldisskilyrði og utanumhald þeirra, þar með áherslu á vettvangi Norðurlandanna undir forystu Íslands.