149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu er þetta vissulega flókið viðfangsefni og á ekki að gera lítið úr því, það gleymist oft í umræðunni. Hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á það í upphafi að öryrkjar eru mjög fjölbreyttur hópur. Öryrkjar eru eins og samfélagið, eins og þverskurður af samfélaginu, og við þurfum að glíma við sömu fjölbreytni eða mismunandi aðstæður eins og í samfélaginu öllu. Það eru ekki til einfaldar patentlausnir í því frekar en í öðrum málum. Við þurfum að finna leiðina sem gengur sem best, sem skilar sem mestum árangri fyrir hópinn í heild.

Ég hef alltaf sagt að mér finnst talað of neikvætt um breytinguna úr örorkumati í starfsgetumat. Starfsgetumat getur eins og örorkumat verið gott kerfi eða slæmt kerfi. Þetta snýst um hvernig kerfi við smíðum. En mér finnst miklu jákvæðara í grunninn að meta fólk út frá getu þess en vangetu. Við eigum ekki að gera lítið úr heitinu, það skiptir hins vegar öllu máli hvers konar starfsgetumat við smíðum. Við skulum einblína á það.

Hér er nefnd t.d. þróunin í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna. Við þurfum að horfa til þess hvernig við tökum á veikindaréttindum, alveg frá veikindarétti hjá vinnuveitanda í gegnum sjúkrasjóð hjá verklaýðsfélagi, og tryggja að samfella sé í stuðningi og þjónustu við fólk frá upphafi en ekki aðeins þegar þau réttindi eru uppurin, sem er því miður gallinn í kerfinu í dag.

Það sem er mér mest áhyggjuefni í því öllu er að þrátt fyrir góð áform ríkisstjórnarinnar í málinu er ekki að sjá að neinu fjármagni sé varið í þetta eða ráðstafað í fjármálaáætlun eða fjárlögum næsta árs. Mér er algjörlega fyrirmunað skilja hvernig ríkisstjórnin ætlar að endurskoða örorkulífeyriskerfið frá grunni, afnema krónu á móti krónu skerðinguna, og verja til þess 4 milljörðum kr. Ljóst er að sú breyting verður kostnaðarsamari, í það minnsta í upphafi, en gert er ráð fyrir og ríkisstjórnin þarf að svara því hvernig hún ætlar að fjármagna hana. Ef 4 milljarðar eru þakið sem það má kosta er augljóst að við munum ekki breyta neinu.