149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið sérstakt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins koma hver á fætur öðrum í umræðum um samgönguáætlun, skemmri og lengri, og í raun tala gegn henni. Ég fer aðeins að hugsa: Eru þessir flokkar ekki saman í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hvers formaður er samgönguráðherra?

Svo fer ég aðeins að þvælast um á fésbókinni og sé þá að Sjálfstæðisflokkurinn hélt stóran fund í Valhöll í gær (JónG: Það er nú ekkert nýtt.) og kynnti þar sína eigin leið, einhverjar hugmyndir um aðra leið í samgöngumálum. Mig langar því að spyrja hv. þm. Brynjar Níelsson: Voru samgönguáætlanir þær sem við fjöllum um í þinginu ekki afgreiddar út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins?