149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög áhugaverða, málefnalega og yfirvegaða umræðu um samgönguáætlun. Ef ég dreg það saman hef ég skilið tóninn þannig að menn hafi fullan skilning á því og geri sér ljóst að miðað við þá fjármuni sem settir eru í nýframkvæmdir, sem þó aldrei hafa verið meiri, væri enn betra að hafa enn meiri fjármuni og þess vegna hefur umræðan um samgönguáætlun í þetta sinn kannski snúist í meira mæli um það hvernig hægt væri að gera þetta með öðrum hætti, hvort hægt væri að finna aðrar leiðir í fjármögnun eða nýtt fjármagn.

Það er af hinu góða, enda er í samgönguáætlun á bls. 36, í 15 ára áætluninni, einmitt fjallað um það að eitt af þeim verkefnum sem unnið er að og lögð er áhersla á í samgönguáætlun er að skoða þurfi aðrar leiðir samhliða þessu, þó ekki væri nema vegna þess að í loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar, sem er eðlilega fjallað um líka í samgönguáætlun, hvernig þau koma fram, erum við með áform uppi um orkuskipti í samgöngum. Markmiðið er að eftir tólf ár verðum við búin að fækka dísil- og bensínbílum um 50%. Gjöld vegna þeirra eru í dag 17–18 milljarðar sem renna beint til vegakerfisins. Þegar búið verður að fækka slíkum bílum um 50% og bílarnir halda áfram að vera sparneytnari verðum við með 7 milljarða, kannski 6. Þá verður erfitt að forgangsraða í framkvæmdum, ef það verða einu tekjurnar.

Þó ekki væri nema vegna þessa er tekið á því í samgönguáætlun að horfa til nýrrar gjaldtöku, meiri notendagjalda. Ein af leiðunum sem jafnframt er verið að skoða í starfshópi um gjaldtöku er einhvers konar samvinnuverkefni, og við höfum þar gott fordæmi í Hvalfjarðargangamódelinu, samstarfsverkefni milli einkaaðila og opinberra aðila og annarra, um fjármögnun, framkvæmd og hugsanlega rekstur einstakra mannvirkja.

Ég verð að segja eins og er að mér hefur fundist vera meiri samhljómur um þetta í þessum sal milli allra þingmanna úr ólíkum flokkum, ég hef heyrt jákvæðar raddir úr eiginlega öllum flokkum, og menn séu tilbúnir að skoða þessar leiðir. Það finnst mér vera gríðarlega jákvætt. Samgönguáætlunin hefur þá kallað það hér fram og kannski umræða síðustu missera og einnig sú staðreynd að allir gera sér grein fyrir því að í öllum landshlutum vilja menn fá meiri framkvæmdir hraðar. Hér er umræðan um Reykjanesbraut kannski mest áberandi. Það komu upp hugmyndir hjá nokkrum þingmönnum um að við ættum að taka arð úr Landsbanka og nýta til framkvæmda við Reykjanesbraut. Staðreyndin er hins vegar sú að ástæðan fyrir því að við höfum meiri fjármuni fyrstu þrjú árin fyrir samgönguáætlun í fjármálaáætluninni er sú að í fyrsta skipti er tekið tillit til arðgreiðslna fjármálafyrirtækja í fjármálaáætlun. Það er því búið að gera ráð fyrir þessum fjármunum þar. Þeir verða ekki notaðir aftur. Það eru ekki til hókus pókus-leiðir. Við búum ekki til peninga með því að smella fingrum. Það getur vel verið að við næstu fjármálaáætlun getum við afmarkað meiri tekjur inn á árin 2022 og 2023, alla vega 2022 á næsta ári. En við verðum að fara varlega í að áætla framtíðararðgreiðslur úr fjármálakerfinu. Það er áhættusamt að eiga tvo banka á Íslandi. Við vitum ekki hversu miklum arði þeir munu skila. Við vitum reyndar að þeir munu ekki skila eins miklum arði í framtíðinni og þeir hafa gert á síðustu árum til ríkissjóðs.

Varðandi einstaka landshluta fyrir utan Reykjanes hefur auðvitað verið fjallað talsvert hér um Vestfirði. Það er augljós galli að þegar þingið tók ákvörðun á sínum tíma að fara í Dýrafjarðargöng voru menn hvorki með peninga né áætlanir um hvernig ætti að tengja þau. Vegagerðin var ekki með þær áætlanir á sama tíma á sama stað. Þær eru á eftir. Þær framkvæmdir eru upp á 10 milljarða, Dynjandisheiðin upp á 5,5, ef ég man rétt, og Bíldudalsvegur upp á 4,4 milljarða. Það er hins vegar mjög skiljanleg krafa að horfa til þess að fá meiri samfellu í verkin. Sú framkvæmd sem er þó á árinu 2020 á Dynjandisheiðinni er að einbreið brú sem er mjög léleg verður sett í stokk, það eru 300 millj. kr. Árið 2022 hefjast framkvæmdir við Dynjandisheiði, yfir 1.200 millj. kr. eru síðan á árinu 2023 og klárast væntanlega á næstu tveimur árum þar á eftir. Ég held að það sé eðlilegt að nefndin skoði hvort hægt sé að flýta þessum verkefnum þannig að það sé meira samhangandi ferli í því. En við skulum líka muna að þessi framkvæmd er núna í umhverfismati af því að hún var ekki skipulögð samhliða Dýrafjarðargöngunum á sínum tíma.

Þess vegna er svo mikilvægt að fá 15 ára áætlun sem er, og ég fagna því hversu margir þingmenn hafa tekið undir það, samhangandi varðandi það hvernig á að leysa stór verkefni frá fyrsta punkti þangað til að þau eru búin, þó svo að einstaka verk innan þess stóra verkefnis séu boðin út í einhverjum áföngum. Ég held að menn hafi skilning á því. Stundum er ekki besta leiðin að bjóða út eitt risastórt verk. Stundum er betra að búta þau niður. Það hefur Vegagerðin mesta reynslu í að meta. Stundum þurfa menn að bakka með eitt risastórt verkefni og bjóða það út í smærri einingum til að fá betra verð og hugsanlega verktaka til að vinna verkið. Við sáum það til að mynda í sumar þegar við ætluðum að fara í tvö hringtorg í Hafnarfirði og vorum með fjármagn til þess að þegar Vegagerðin bauð það út bauð enginn í það verkefni. Stundum þurfum við að hugsa hlutina öðruvísi.

Þess vegna hef ég lagt áherslu á það að þegar við erum að stórauka nýframkvæmdirnar á næsta ári, fara í 13,5 milljarða, þá verða auðvitað einhver mörk á því hversu mikið við getum framkvæmt á hverju ári. Við gætum þurft að hækka okkur smátt og smátt á meðan verktakarnir eru að sækja ný tæki og fólk til að vinna þessi verkefni. En ég held að það væri mikilvægt ef við gætum aukið þetta, til að mynda með fjármögnun með öðrum hætti, hvort sem væri með beinni gjaldtöku eða öðrum leiðum, fengjum meira fjármagn inn í þetta og gætum hækkað framkvæmdastigið í kannski 16, 17, 18 milljarða á ári. Ég veit ekki hvort við myndum ráða við 20 milljarða.

Það er þó eitt gott við það að við erum á þessum tíma í hagsveiflunni, hagkerfið er að kólna og þá er góður tími fyrir ríkið að grípa inn í til þess að vega á móti

Hér hefur líka verið rætt heilmikið um flugið. Ég held að margir hafi skilning á því að þar þarf að gera betur. En ég veit líka að margir vænta mikils af þeirri vinnu sem er í gangi, annars vegar eigendastefnu Isavia og hins vegar hvernig við komum skosku leiðinni inn í umgjörðina um almenningssamgöngur, komum því í framkvæmd. Það er verkefni sem nefndin mun án efa þurfa að fjalla um í haust og fram að áramótum en ég legg áherslu á að það er mikilvægt að ljúka vinnu við samgönguáætlun fyrir áramót því núgildandi samgönguáætlun rennur út í lok árs og ég held að allir í þessum sal séu sammála um að það væri mjög gott að geta hafið útboðin 1. eða 2. janúar árið 2019.

Að lokum vil ég þakka fyrir mjög góða umræðu. Ég get ekki farið í einstaka punkta sem hér komu fram. Þó var áhugavert að heyra til að mynda Steinunni Þóru Harðardóttur — Harðardóttur, er það ekki?

(Forseti (ÞorS): Árnadóttur.)

… nefna það hér undir lokin að við þurfum að horfa til svo fjölbreytts ferðamáta. Það eru ekki bara vegir, bara flug, bara hafnir, við erum líka að tala um gangandi og hjólandi umferð og við þurfum að horfa til mismunandi þarfa fólks. Þess vegna eru almenningssamgöngurnar svo mikilvægar og ég ætla að enda á því að tala örlítið um þær, nokkrir þingmenn komu inn á þær. Það er í fyrsta skipti samstarf í gangi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um það hvernig við ætlum að fara með 85 milljarða verkefni næstu 15 árin, hvernig þau verða sett í rétta framkvæmdaröð. Annars vegar er það sá hluti sem snýr að almenningssamgöngum og hins vegar sá hluti sem snýr að stofnbrautunum. Það er mjög mikilvægt að ná samstöðu um þessi verkefni. Margir þingmenn hafa kallað eftir greiðari samgöngum með til að mynda ofanbyggðavegum. Það er verkefni sem sveitarfélögin þurfa að taka til sín (Forseti hringir.) því að slíkt heyrir undir skipulagsmál sveitarfélaganna. Þau hafa því miður sum hver lokað á slíkar framkvæmdir. Hvernig ætlum við að komast fram hjá Reykjavík, fram hjá því að keyra í gegnum miðbæ Reykjavíkur og öll umferðarljósin? Það er mjög mikilvægt verkefni. Ég held þess vegna að þarna séum við á réttum stað, í samstarfi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, til að taka þessa umræðu. Þau hafa jú yfir að ráða svæðisskipulaginu. Vonandi fáum við góðar niðurstöður út úr því eigi síðar en um miðjan nóvember sem nefndin getur síðan nýtt inn í að klára samgönguáætlun þar sem menn hafa (Forseti hringir.) tímasett verkefni um almenningssamgöngur og stofnbrautir inn í þessi risaverkefni hér á höfuðborgarsvæðinu.