149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[15:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá. Málefni sauðfjárbænda. Gildandi búvörusamningar eru frá 2016 og gilda til tíu ára til ársins 2026 og þar á meðal búvörusamningur um sauðfé og starfsskilyrði sauðfjárræktar. Auk þess að treysta áframhaldandi stuðning ríkisins við greinina var með samningnum lögð áhersla á gæðastýringu sem byggir á velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd, sjálfbærri landnýtingu og fjölbreyttara framboði á gæðaafurðum á sanngjörnu verði fyrir neytendur.

Það má segja að markmiðin hafi kannski ekki alveg gengið eftir sem skyldi og eitt af fyrstu verkefnum hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra var að bregðast við vanda sauðfjárbænda. Ég ætla til upprifjunar að lesa úr nefndaráliti hv. fjárlaganefndar í umfjöllun um fjárauka fyrir árið 2017, með leyfi forseta:

„Á árinu hafa vandamál vegna verðfalls á útflutningsmörkuðum búvöru verið sérstaklega þung í skauti fyrir sauðfjárræktina og bændur sem hana stunda. Verðfall í kjölfarið á viðskiptastríði Evrópusambandsins og Rússlands hefur orsakað verulegan tekjusamdrátt en viðskiptastríðið er afleiðing af pólitískum ákvörðunum sem skapar forsendubrest. Sauðfjárræktin er mikilvæg stoð við byggð í dreifbýli og veik staða hennar hefur afgerandi áhrif á þróun byggða, vöxt þeirra og getu til að standa undir samfélagslegri grunnstarfsemi við íbúa. Sauðfjárbúskapur er sérstaklega viðkvæmur í ákveðnum byggðum landsins og í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá árinu 2016 er áhersla lögð á sérstakt gildi greinarinnar fyrir ákveðin byggðarlög [...] Meiri hlutinn telur að ráðstöfun í fjáraukalögum undirstriki alvarleika þeirrar stöðu sem byggðir standa frammi fyrir og að ákvörðun um aðgerðir megi ekki dragast lengur. Heimildin geti unnið gegn gjaldþrotum og byggðaröskun. Aðrar aðgerðir en þær sem snúa beint að bændum eru ætlaðar til að bæta til lengri tíma umgjörð um atvinnugreinina og þannig styrk þeirra byggða sem á henni byggja.“

Í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði meiri hlutinn til að ráðstöfun fjárheimildarinnar og lausnin, til að mæta þessum vanda og markaðserfiðleikum í greininni og lægra afurðaverði, yrði í sérstöku framlagi á fjáraukalögum 2017, að fjárhæð 665 millj. kr. sem skiptist þannig að 400 millj. kr. fóru í almennan stuðning, 150 millj. kr. í svæðisbundinn stuðning, 50 millj. kr. í almennar aðgerðir á sviði kolefnisjöfnunar og nýsköpunar og 15 millj. kr. í úttekt á afurðastöðvakerfinu með það fyrir augum að lækka sláturkostnað og auka hagræðingu í greininni og 50 millj. kr. til þess, ef úttektin myndi leiða það í ljós, að styðja við hagræðingu í sláturhúsum.

Núgildandi búvörusamningur gerir m.a. ráð fyrir að greiðslumarkið fjari út á samningstímanum. Stuðningsform ríkisins breytist á samningstímanum þannig að áhersla er aukin á gæðastýrða framleiðslu, byggðatengdan stuðning og enn fremur á að auka virði sauðfjárafurða.

Við verðum að skoða hvernig þetta hefur tekist á þeim tíma sem liðinn er. Við endurskoðun samningsins 2019 skal horfa til þess hvernig framleiðsla sauðfjárafurða og afkoma í greininni hefur þróast, hvaða árangur hefur náðst við útflutning og hvaða markmið samningsins hafa gengið eftir. Einnig skal skoða þróun í bústærð og fjölda búa eftir svæðum og fjárfjölda í landinu. Fram að endurskoðun hefur verið stefnt að því að auka útflutningstekjur af sauðfjárrækt sem leiðir til þess að hlutur bænda í heildarverðmætasköpun greinarinnar aukist. Takist það ekki skal niðurtröppun beingreiðslna endurskoðuð.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt fyrir okkur í þinginu að fylgjast með í ljósi stöðunnar og þeirrar framtíðar og skilyrða sem við þurfum að huga að varðandi greinina, t.d. hvort það sé til skoðunar, eins og samningurinn kveður á um, að endurskoða niðurtröppun beingreiðslna samkvæmt greiðslumarki.

Fyrir umræðuna hér skil ég eftir þrjár beinar spurningar til hæstv. ráðherra.

1. Hver er staða viðræðna ráðuneytisins við sauðfjárbændur um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar?

2. Er ráðherra tilbúinn að fara inn á gildandi samning til þess að stöðva niðurtröppun á greiðslumarki um komandi áramót?

3. Eru einhverjar hugmyndir eða tillögur mótaðar um breytingar á lagaumhverfi afurðageirans í sauðfjárrækt sem myndu leiða hagræðingar innan geirans?