149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka sérstaklega hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrir að taka þessa umræðu hér í þinginu og fara yfir stöðu sauðfjárbænda. Ég fagna þeirri afstöðu sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og fer kannski yfir það síðar, en ég vil og þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Það er augljóst að þingheimur er mjög vel meðvitaður um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar stöðu sauðfjárbænda.

Varðandi þær spurningar sem ég skildi hér eftir í upphafi umræðunnar þá er fullur skilningur á því að þetta er, samkvæmt endurskoðunarákvæði samningsins, á viðræðustigi. En ég held að í ljósi umræðunnar hér sé ráð að hraða því. Ég held að ráðherra sé vel nestaður af þeim hugmyndum og þeirri sýn sem hv. þingmenn komu á framfæri í þessari umræðu. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hér kom fram — að horfa á þetta raunsæjum augum, að ná jafnvægi í framleiðslunni, það er afar mikilvægt. Við þurfum að skoða virðiskeðjuna í heild og lausnin er væntanlega að laða fram virðisaukann á hverju einasta stigi í þessari keðju. Ég held að það hafi komið mjög skýrt fram í umræðunni að á það hefur skort og ekki síst í söluenda keðjunnar.

Eftir sem áður leggjum við áherslu á það hér að við Íslendingar eigum að vera leiðandi sem fyrr í framleiðslu á heilnæmum afurðum sem lambakjötið svo sannarlega er. Við eigum ávallt að verja þá sérstöðu. Annars þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu.