149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa þingmenn komið víða við. Margar góðar hugmyndir, margt gott nefnt sem hlýtur að vera innlegg í þá vinnu sem nú stendur yfir í samningum milli bænda og ríkisins. Ég minni á það að samningurinn sem verið er að endurskoða hefur gildistíma til ársins 2026. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason flutti hér innblásna ræðu og rakti söguna langt aftur í aldir og þakkaði sauðkindinni fyrir allt gott sem gerðist áður fyrr — hárrétt — og dró fram gæði forystufjárins. Það hefði leitt hjörðina og smalann fram á veg. Nú í dag notum við hins vegar GPS. Það eru aðrar leiðir. Það tengist því sem hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson sagði: Verkefnið er að gera greininni kleift að takast á við nýja tíma. Vandinn er ekki forystufé eða GPS eða annað. Vandinn liggur m.a. í því að frá árinu 1983 hefur neysla á lambakjöti dregist saman úr 48 kílóum niður í undir 20 kíló. Það er hvorki forystukindinni að kenna né þakka. Það eru bara breytingar í þjóðfélaginu sem við verðum að gera atvinnugreininni kleift að takast á við og við þurfum að hjálpa henni við það.

Nú háttar þannig til að það er mikið af áskorunum uppi á himninum fyrir þessa grein sem aðrar greinar í landbúnaði. Tollar, innflutningur á hráu kjöti, erfiðleikar í byggðamynstri, margir þættir. Allt kemur það með einhverjum hætti inn í þá vinnu sem hér liggur fyrir.

Ég get þó ekki viðurkennt það sem fram kom hjá einum hv. þingmanni að stóra vandamálið væri að við værum að styrkja stöðu landbúnaðarskrifstofunnar í ráðuneytinu. Það er mikill misskilningur að verið sé að pakka öllu saman niður í eina litla skúffu sem heiti alþjóðamál. Það er rangt. Kolrangt. Við erum að styrkja stöðu ráðuneytisins (Forseti hringir.) til þess að takast á við þau mörgu spennandi verkefni sem við er að glíma á sviði landbúnaðar.