149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði.

149. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma til þessa fyrirspurnatíma. Við höfum rætt hér töluvert mikið um fiskeldi í þessum sal og eins úti í samfélaginu undanfarnar vikur og mánuði enda ekki nema von. Við vitum öll að fiskeldi er stór atvinnugrein á Íslandi í dag og fer stækkandi. Hún er gríðarlega mikilvæg fyrir ákveðna landshluta, ekki síst Vestfirði. Vestfirðingar hafa eygt von um og séð að hægt er að búa til atvinnugrein sem hentar ágætlega starfsemi og aðstæðum fyrir vestan.

Í september 2016 skilaði nefnd skýrslu. Nefndin var skipuð af þáverandi forsætisráðherra um það hvernig efla mætti Vestfirði, þ.e. hvernig fjölga mætti störfum, fólki og styðja við þá atvinnuvegi og uppbyggingu sem Vestfirðingar vildu gjarnan fara í. Ein af tillögunum sem nefndin lagði til var sú að miðstöð fiskeldis yrði staðsett fyrir vestan. Ekki var sagt hvar, enda þurfa menn að fara varlega í kjördæmunum sínum. En eðlilega sögðu Vestfirðingar að þeir væru að byggja upp fiskeldi og að eðlilegt væri að starfsemin, miðstöðin, yrði staðsett í kjördæminu, þ.e. á Vestfjarðakjálkanum. Í kjölfar funda í ráðuneytinu, sem sá er hér stendur sat á þeim tíma, mjög stutt reyndar, var rætt við embættismenn ráðuneytisins og forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Sú ákvörðun var tekin að byggja upp starfsemi fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði. Það var tilkynnt með fréttatilkynningu 6. október 2016 að slíkt yrði gert frá og með árinu 2018, þ.e. að í ársbyrjun 2018 ætti þessi starfsemi að hefjast á Ísafirði.

Nú erum við komin inn í október 2018 og enn hefur þessi starfsemi ekki hafist fyrir vestan. Hugmyndin var að sjálfsögðu að sérfræðingurinn, yfirmaður fiskeldissviðsins, yrði staðsettur þar, síðan myndum við hlaða utan á þetta störfum. Að sjálfsögðu er það algjörlega í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórna líklega svo langt aftur sem við getum öll munað, þ.e. að verið er að styrkja landsbyggðina, flytja störf út á land og fjölga störfum úti á landi. Þarna átti að búa til nýtt svið og efla það sem næst þeim iðnaði sem sviðið tilheyrir.

Því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga til að byrja með, í ljósi þess að nú er árið bráðum á enda: Hefur ráðherra breytt þeirri ákvörðun að sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun ásamt sérfræðingum verði staðsettur á Ísafirði frá og með árinu 2018, líkt og fram kom í tilkynningu 6. október 2016 frá þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Ef svo er, hvaða rök eru fyrir því að breyta þeirri ákvörðun? Ef ákvörðun hefur ekki verið breytt, hvað í ósköpunum tefur það að starfsemin flytjist á Ísafjörð? Mér er ekki kunnugt um að það sé húsnæðisekla eða eitthvað slíkt sem komi í veg fyrir að menn setji sig niður á Ísafirði.